Helgarsprokið 29. október 2006

302. tbl. 10. árg.

S kjaldbakan Harriet, sem dó í sumar í dýragarði í Ástralíu, náði um það bil 175 ára aldri. Töldu sumir að sjálfur Charles Darwin hefði numið hana frá fæðingarstað sínum á Galapagoseyjum, en það liggur raunar ekki ljóst fyrir. Alltént átti Harriet fremur undarlega ævi, miðað við skjaldbökur almennt, en henni var hlíft við nær öllum þeim hættum sem að tegundinni steðja og vilja umsjónarmenn hennar í dýragarðinum einmitt þakka langlífi hennar því, hversu algerlega laus hún var við allt stress í meira en eina og hálfa öld.

Darwin kom til Galapagoseyja 1835 og var þá löngu byrjaður á að safna gögnum um lífverur jarðar. Nær aldarfjórðungi síðar gaf hann út eitt frægasta vísindarit heimsins, um uppruna tegundanna, og óhætt að segja að rannsóknir hans á Galapagoseyjum hafi haft sitt að segja um niðurstöður hans. Ritið þetta vakti mikla athygli, líkt og allir vita, og ekki eingöngu fyrir að vera vísindaleg útskýring á lífríkinu, heldur fór þessi kenning nokkuð fyrir brjóstið á kirkjunnar mönnum á sínum tíma, enda allnokkur munur á útskýringum Darwins og biblíunnar á tilurð lífvera.

„Popper tók jafnframt dæmi um kenningu og kenningarsmiði, sem forðuðust mjög að taka mark á þeim staðreyndum sem pössuðu illa við kenninguna. Þetta var kenningin um kommúnisma og upphafsmenn hennar, Marx og Engels. Þeir börðust hatrammlega fyrir henni þrátt fyrir þunga mótrakanna og tóku fylgismenn þeirra upp sama sið. Kommúnisminn varð fljótlega kenning, sem sannaði sjálfa sig.“

Á sínum tíma, já, og raunar enn þann dag í dag. Sá hópur, sem hafnar algerlega úrskýringum þróunarkenningarinnar, virðist ekki fara minnkandi þessi misserin. Í raun hefur ákveðin hópur fólks vestan Atlantsála barist mjög fyrir því að börnum verði kynnt önnur kenning jafnhliða þróunarkenningunni. Er sú kenning kennd við hugvitsamlega hönnun og fer vegur hennar vaxandi víðar en bara í henni Ameríku. Kenningin um hugvitsamlega hönnun á, samkvæmt talsmönnum hennar, jafnmikið erindi í kennslustofur og þróunarkenningin; í báðum tilvikum er um að ræða vísindakenningar, sem ekki hafa verið fullsannaðar, og fráleitt að útiloka aðra þeirra algerlega frá umræðunni. Sér í lagi þar sem það ætti að koma báðum vel að takast á um galla og kosti beggja.

Kjarni hönnunarkenningarinnar er sá, að vonlaust sé að heimurinn allur og lífið á jörðinni, jafn flókið og fjölbreytt og það er, hafi þróast fyrir einhverja slysni. Að baki hljóti að búa yfirnáttúrlegur máttur, sem hefur hannað þetta ótrúlega stórvirki, sem lífið á jörðinni er. Talsmenn hönnunarkenningarinnar hafa aldrei sagt, að það sé guð sem sé hinn yfirnáttúrlegi máttur sem um ræðir, og skilja sig þannig frá öðrum hópi sem kalla má sköpunarsinna, sem einmitt benda á guð í þessu samhengi. Hönnunarsinnar samþykkja meira að segja, að einhver þróun í anda kenningar Darwins, eigi sér stað, bara ekki í þeim mæli sem talsmenn þróunarkenningarinnar halda fram.

Málið er raunar, eins og flest fólk veit, pólitískt eðlis. Í Bandaríkjunum hamlar stjórnarskráin trúarbragðakennslu undir formerkjum vísinda. Andstæðingar hönnunarsinna benda á, að með því að láta guð fá nýtt nafn og kennitölu, sem „yfirnáttúrulegur máttur“ sé verið að smygla guði inn í kennslustofurnar framhjá ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Til ólukku fyrir hönnunarsinna, þá á kenning þeirra fátt skylt við vísindi. Um leið og því er haldið fram, að eitthvað yfirnáttúrulegt hafi hannað og/eða sé að hanna náttúruna, er verið að taka út úr myndinni þann möguleika að rannsaka og greina einmitt það atvik. Þar eð þessi hönnun gerist utan við náttúruna og er ósýnileg, ógreinanleg, órannsakanleg, þá er ekki hægt að beita aðferðum vísinda á hönnunina sjálfa. Um leið verður viðfangsefnið að einhverju öðru en vísindum, í þessu tilfelli trúmál.

Í þessu sambandi er ágætt að rifja upp orð Poppers um hina vísindalegu aðferð. Í hvert sinn sem mannskepnan vinnur að lausn einhvers vandamáls og reynir að skýra hlutina út með einhverri kenningu, er það einfaldlega í mannlegu eðli að lítast betur á þær staðreyndir sem styðja kenninguna en hinar sem myndu beinlínis ganga af henni dauðri. Þegar látið er reyna á kenningarnar með tilraunum, er stundum erfitt að viðurkenna þegar niðurstöður tilraunarinnar virðast benda til þess að öll kenningin er röng. Popper benti á Einstein sem vísindamann af því taginu, sem áttaði sig vel á þessu. Einstein setti sjálfur fram nokkur skilyrði fyrir því að afstæðiskenningin fengi staðist – og gerði sér fulla grein fyrir því að þó svo kenningin stæðist þessi skilyrði, væri ekkert eðlilegra en að haldið yrði áfram að láta reyna á hana. Aðeins þannig gæti kenning lifað af; með endalausum tilgátum um að hún sé röng og tilraunum í þá veru. Ef í ljós kæmi að hún væri röng, þá er það einnig jákvætt í sjálfu sér; nú væri alltént búið að kanna þennan möguleika og tími til kominn að finna aðra og sennilegri tilgátu um viðfangsefnið.

Popper tók jafnframt dæmi um kenningu og kenningarsmiði, sem forðuðust mjög að taka mark á þeim staðreyndum sem pössuðu illa við kenninguna. Þetta var kenningin um kommúnisma og upphafsmenn hennar, Marx og Engels. Þeir börðust hatrammlega fyrir henni þrátt fyrir þunga mótrakanna og tóku fylgismenn þeirra upp sama sið. Kommúnisminn varð fljótlega kenning, sem sannaði sjálfa sig. Neikvæðar niðurstöður voru einfaldlega lygar andstæðinganna. Samkvæmt eigin mælikvörðum var ekki hægt að afsanna kenninguna.

Þróunarkenningin er sömuleiðis – og sem betur fer – sífellt og endalaust tekinn til gagnrýnnar umræðu. Hún hefur staðist þessa gagnrýni með nokkurri prýði hingað til og frekari rannsóknir og tilgátur frá 1859, þegar Darwin setti kenninganna fram í bók sinni, hafa styrkt hana töluvert. Þó er hún ekki fullsönnuð, né verður hún það nokkurn tímann. Í því felst styrkur hennar og annarra vísindakenninga.

Hönnunarkenningin á hins vegar meira skylt við kommúnisma; það er ekki hægt að afsanna hana, þar sem kjarni hennar er laus undan því að vel skoðuð með öllum tækjum og tólum vísinda – eins og allt annað sem er yfirnáttúrulegt. Á meðan það er ekkert rangt við það að aðhyllast þess lags kenningar, þá er það fullmikið af hinu góða að kenna þær sem vísindi. Vísindakenningar gera að einhverju leyti ráð fyrir því að vera afsannaðar einhvern tímann og það er bæði gott mál ef það ætlar ekki að takast, sem og ef það tekst. Í hvoru tilvikinu um sig hefur vísindaleg þekking, og mannlegt hugvit, eflst.