S umir alþingismenn gera ýmislegt bæði til að styrkja stöðu sína og vekja á sér athygli. Ein aðferð sem þeir hafa er að leggja fram óþarfar eða vanhugsaðar tillögur eða frumvörp á Alþingi. Gott dæmi um það er frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni sem liggur fyrir núverandi þingi. Kristinn H. Gunnarsson, stundum þingmaður Framsóknarflokksins, er flutningsmaður frumvarpsins, sem gengur meðal annars út á að þingmenn sem verði ráðherrar skuli afsala sér þingmennsku. Rökin sem Kristinn færir fyrir þessu er að með því verði meiri aðskilnaður milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins, en hann telur fyrrnefnda valdið of áhrifamikið hér á landi.
En þó að Kristinn gefi þessa skýringu á tillöguflutningnum verður í ljósi framgöngu hans að öðru leyti að ætla að aðrar ástæður, eða að minnsta kosti fleiri ástæður, búi að baki frumvarpinu. Kristinn kemur úr afar litlum þingflokki, að svo miklu leyti sem hægt er að segja að hann tilheyri þingflokki, og útlit er fyrir að sá þingflokkur fari enn minnkandi. Með breytingunni sem hann leggur til mundu líkurnar aukast á því að hann héldi þingsæti sínu, því að með því að fyrsti þingmaður flokksins í kjördæminu settist í stól ráðherra mundu næstu menn listans færast upp.
Þetta er þess vegna alveg ótrúlega gegnsætt sérhagsmunapot, þó að á það sé aldrei bent þegar þingmenn viðra hugmyndir af þessu tagi. Hugmyndin gengur einfaldlega út á að fjölga þeim sem hafa atvinnu af stjórnmálum, sem kann að vera heppilegt fyrir þingmenn lítilla flokka sem ekki eiga miklar vonir um örugg sæti, en er óheppileg fyrir skattgreiðendur. Það er engin þörf á því að fjölga þingmönnum eða öðrum sem starfa að stjórnmálum. Best er að fjöldi þeirra sé mjög hóflegur til að þeir séu ekki að fást við of margt og einbeiti sér að því að leggja meginlínurnar í þjóðfélaginu. Það þarf ekki að bæta við 12 þingmönnum á Alþingi til að tryggja að það starfi vel og standi sterkum fótum. Þingmenn verða einfaldlega að vita hvað þeir vilja og kunna að setja sér mörk í störfum sínum. Ef Alþingi mundi aðeins fjalla um það sem þangað á erindi, í stað þess að fjalla um endalausar tillögur, frumvörp og fyrirspurnir stjórnarandstöðunnar, sem hafa þann tilgang helstan að vekja athygli á einstaka þingmönnum, þá gæfist nægur tími og þá væru þingmenn meira en nógu margir til að fjalla vandlega um öll þessi mál.