Mánudagur 30. október 2006

303. tbl. 10. árg.

H leranir hafa verið fyrirferðarmiklar í umræðunni undanfarna daga. Sumum hefur þótt sem alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin í þau skipti sem lögreglan, að fengnum dómsúrskurði, hleraði síma nokkurra helstu forkólfa sósíalista, vegna ótta um að þeir hygðust efna til uppþota sem vitað var að lögreglan myndi eiga fullt í fangi með að verjast. Menn hafa talað eins og þessir menn hafi verið hvítþvegnir englar sem enginn hefði þurft að búast við neinu af. Fréttamenn hafa að minnsta kosti ekki sýnt mikinn áhuga á að ræða nokkuð um tengsl íslenskra sósíalista við bræðraflokkana í austri, við stjórnvöldin sem ráku stærstu fangabúðir sem mannkynssagan kann frá að greina, einhverja hryllilegustu harðstjórn sem þekkst hefur. Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála, og Þór Whitehead prófessor hafa að vísu skorið sig úr í umræðunni með því að segja nokkur þörf orð í þá veru, en almennt má segja að fjölmiðlamenn hafa lítið gert af því. Reykjavíkurbréf sunnudagsblaðs Morgunblaðsins  var því kærkomið nú um helgina, en þar er eitt og annað rifjað upp sem skýrt gæti fyrir fólki hvers vegna ástæða gat þótt til eftirlits.

Morgunblaðið fjallaði um fleira en hleranir. Blaðið kom til varnar Jóni Baldvini Hannibalssyni sem ásamt Steingrími Hermannssyni mun hafa staðið fyrir því að reynt yrði að grafast fyrir um hugsanleg tengsl Svavars Gestssonar, samráðherra þeirra, við austurþýsku leyniþjónustuna, Stasi. Sagði blaðið:

En var eitthvað undarlegt við það að stjórnendur lands og þjóðar vildu vita hvar þeir hefðu Svavar?

Í athyglisverðri bók Arnórs Hannibalssonar (bróður Jóns Baldvins og eins fyrsta Íslendingsins, sem hlaut menntun sína í Moskvu) sem heitir Moskvulínan og kom út árið 1999 skýrir Arnór frá því að í skjalasafni alþjóðadeildar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna sé að finna miklar heimildir um samskipti Sovétríkjanna og þá sérstaklega Kommúnistaflokksins við Ísland. Arnór (sem er rússneskumælandi) segir: „Hið eina, sem leyft var að skoða var skrá um skjöl í skjalasafni Alþjóðadeildar og skrá um samskipti við Ísland, sem kom úr sekretariati miðstjórnar og samanstóð af venjulegum spjaldskrárspjöldum og hafði verið raðað í kassa.“

Síðan segir Arnór frá því hvað stóð á þessum spjöldum. Þar stóð m.a.:

„29.9. 1980. ALGJÖRLEGA LEYNILEGT. Um að bjóða til Sovétríkjanna, félagsmálaráðherra Íslands, Svavari Gestssyni.

Samþ. að verða við tillögu Ríkisnefndar Sovétríkjanna um vinnumál og félagsmál að bjóða til Sovétríkjanna í september 1980 félagsmálaráðherra Íslands, Svavari Gestssyni, ásamt tveim samfylgdarmönnum til fimm daga dvalar. Kostnað ber Ríkisnefnd Sovétríkjanna um vinnumál. Sbr. skráningu um samþykki no. 674 12.2. 1981.

12.2. 1981 ALGJÖRLEGA LEYNILEGT. Um að fresta för formanns flokksins, Alþýðubandalags, félagsmálaráðherra Íslands, Svavars Gestssonar til Sovétríkjanna þar til 1. júní 1981.“

Nú vaknar óhjákvæmilega þessi spurning: Hvers vegna hvíldi slíkur leyndarhjúpur yfir boði til Svavars Gestssonar til Sovétríkjanna á árinu 1981 að allar samþykktir um það boð væru merktar: „ALGJÖRLEGA LEYNILEGT“?

Hvað var svona leynilegt við þetta boð? Var þetta ekki bara venjulegt boð frá einum ráðherra til annars? Eða voru öll skjöl þar sem Svavar Gestsson var nefndur svona merkt? Arnór Hannibalsson skoðaði þessi gögn 1992. Vel má vera að nú sé opinn aðgangur að frekari upplýsingum um þetta leynilega boð. Ef svo er gæti verið fróðlegt fyrir unga og áhugasama sagnfræðinga eða þá sem eldri eru eins og Kjartan Ólafsson að skoða frekari gögn um þetta mál og hvers vegna samskipti við Svavar Gestsson voru á þessum tíma í Moskvu merkt: ALGJÖRLEGA LEYNILEGT!

Óhætt er að segja, að bókin Moskvulínan eftir prófessor Arnór Hannibalsson er afar forvitnileg. Hún fæst í bóksölu Andríkis kostar kr. 1900 og er heimsending innifalin.

E ins og sagt hefur verið frá hér áður gaf Sigríður Á. Andersen lögfræðingur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fór nú um helgina. Niðurstaða prófkjörsins þýðir að Sigríður mun skipa fimmta sæti annars framboðslista Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni næsta vor. Nú þegar þetta liggur fyrir víkur Sigríður úr ritstjórn andrikis.is. Viðfangsefni Andríkis snúa að mestu leyti að störfum stjórnmálamanna og það er samdóma álit Sigríðar og annarra ritstjórnarmanna að framboð fyrir stjórnmálaflokk fari ekki vel saman við setu í ritstjórninni. Sigríður er þriðji ritstjórnarmaðurinn sem hverfur á braut á þeim tæpa áratug sem vefritið hefur komið út en nú er ritstjórnin skipuð fimm mönnum.