Þriðjudagur 24. október 2006

297. tbl. 10. árg.

Þ að er gömul saga að það er erfitt að gera íslenskum vinstri mönnum til hæfis. Einn þeirra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem nú lætur eins og hann trúi því að einhverjir hafi hlerað hjá honum símann fyrir áratug – og Jón vitað allan tímann en engum sagt fyrr en nú í viðtölum um helgina. Nú er hann alveg á móti því að ríkissaksóknari rannsaki hvort einhver hafi í raun brotið af sér með slíkum hlerunum. Tillaga Jóns er sú – og auðvitað ekki lögð fram fyrr en ríkissaksóknari tilkynnti ákvörðun sína, að öllum hugsanlegum hlerurum yrðu fyrirfram gefnar upp sakir, því þá væru meiri líkur að „málið“ upplýstist,.

Hvernig halda menn nú að Jón Baldvin og aðrir stjórnarandstæðingar hefðu brugðist við ef málið hefði þróast þannig að Jón Baldvin hefði skyndilega sett fram alvarlegar ásakanir og stjórnvöld hefðu hlaupið til og gefið öllum þeim upp sakir sem kynnu að hafa brotið af sér? Þá hefði nú aldeilis verið talað um að nú væri verið að vernda einhverja. Af hverju er málið ekki rannsakað, hverjum er verið að hlífa, hefði þá verið spurt. Þetta yrði vafalaust eins og þegar ríkisstjórnin lækkar skatta. Stjórnarandstöðunni þykja það yfirleitt rangir skattar, á röngum tíma og um ranga prósentu. En hún er auðvitað mjög hlynnt skattalækkunum, bara ekki þeim sem framkvæmdar eru.

En þetta eru raunar aukaatriði við hliðina á því sem blasir við en fáir virðast kunna við að segja: Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að nokkur maður hafi hlerað síma Jóns Baldvins Hannibalssonar – og hvað þá Árna Páls Árnasonar. En ef að frásagnir þeirra væru nú sannar að því leyti til að þeir hefðu sjálfir trúað því öll þessi ár að síminn hjá þeim væri hleraður, þá segði málið allt mikla sögu um þá:

* Tveir menn í miklum ábyrgðarstöðum hjá íslenska ríkinu telja að sími þeirra sé hleraður.

* Hvorugur þeirra segir öðru fólki frá þessu. Ráðherrann varar ekki aðra ráðherra við. Ekki samstarfsmenn sína í ráðuneytinu. Ekki einu sinni viðmælendur sína í símanum heldur lætur þá tala og tala í síma sem ráðherrann telur vera hleraðan. Og embættismaðurinn, hann segir ekki ráðherra sínum frá málinu, ekki ráðuneytisstjóranum, ekki samstarfsmönnum sínum í ráðuneytinu sem gætu verið hleraðir líka, og ekki þeim sem við hann tala. Nei, hvorugur segir neitt.

En þetta rifjast að vísu upp meira en tíu árum síðar þegar prófkjör eru að hefjast.

F réttamenn hafa miklar áhyggjur af því að á kaldastríðsárunum, þegar Vesturlönd bjuggu við ógnina af útþenslu kommúnismanns, símar hafi í nokkur skipti, og eingöngu að fengnum dómsúrskurði, verið hleraðir hjá mönnum sem grunaðir voru um að tengjast erlendum kommúnismastjórnum eða grafa undan vörnum Vesturlanda á annan hátt. Ekkert er að því að fréttamenn fjalli um þessi mál eins og aðra mikilvæga hluta kaldastríðsáranna. En merkilegt er það, að fréttamenn höfðu ekki alveg sömu áhyggjur þegar tölvupóstar fólks voru komnir í hendur fjölmiðils sem birti þá í fullkomnu óleyfi. Þá voru ekki alveg sömu áhyggjurnar af persónuvernd og mannréttindum.