Mánudagur 23. október 2006

296. tbl. 10. árg.

Þ að er dálítið sérkennilegt að fylgjast með fréttum af vandræðagangi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi þessa dagana. Komið hefur fram að í einhverjum tilvikum hafi rafrænar nýskráningar á heimasíðu flokksins ekki skilað sér inn á kjörskrá sem nota á í prófkjöri flokksins. Þetta mun hafa kallað á mikla rannsókn sem á að hafa leitt í ljós nokkur tilvik þar sem eitthvað hafði misfarist og samkvæmt kjörstjórn Samfylkingarinnar hefur það verið leiðrétt.

Það sem er sérkennilegt við þetta er hins vegar að sagðar skuli fréttir af þessu eins og þetta skipti einhverju máli. Það er látið eins og það breyti einhverju hverjir kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Og í því felst sennilega að einhverju skipti hvað flokksmenn kjósi í prófkjörinu. Það er sem sagt látið eins og niðurstaða prófkjörsins breyti einhverju um röðun á listann.

Það eru ekki nema örfá ár, nánar tiltekið árið 1999, síðan þessi sami flokkur hélt prófkjör fyrir Alþingiskosningar á þessu sama landsvæði. Prófkjörið fór fram samkvæmt lögmætri kjörskrá eftir því sem best er vitað, en það breytti bara engu um niðurstöðuna. Þegar talið var upp úr kjörkössunum kom í ljós að Sigbjörn Gunnarsson hafði sigrað í prófkjörinu og Svanfríður Jónasdóttir orðið í öðru sæti. Var þá krafist endurtalningar og skilaði sú talning sömu niðurstöðu og hin fyrri, Sigbjörn var sigurvegari prófkjörsins. Þetta þoldi forysta Samfylkingarinnar ekki og bolaði Sigbirni út af listanum og lyfti frambjóðandanum sem hafði lent í þriðja sæti upp í það fyrsta. Reynslan af prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi er því sú að litlu breyti hverjir eru á kjörskrá flokksins fyrir prófkjörið, þar sem það breytir litlu hver endar í hvaða sæti á listanum. Sá sem nær fyrsta sætinu getur alls ekki gert ráð fyrir að fá sæti á listanum og sá sem lendir í þriðja sæti getur allt eins verið lyft upp í það fyrsta.

Að lokum er rétt að vekja athygli á öðru. Sumir telja að kosningar verði þeim mun betri og gott ef ekki lýðræðislegri eftir því sem þær verða rafrænni. Vandræðagangur Samfylkingarinnar nú stafaði af því að reynt var að notast við rafrænar skráningar. Af einhverjum ástæðum klúðruðust sumar skráningarnar, en tölvumistök virðast gjarnan verða þegar um of er notast við tölvur í kosningum. Þetta á raunar sérstaklega við hinn nútímalega og lýðræðislega jafnaðarmannaflokk Samfylkinguna. Á síðasta landsfundi flokksins skilaði tölvukosning núverandi varaformanni flokksins til dæmis sigri með vægast sagt dularfullum hætti, eins og við höfum áður gert nokkur skil.