Helgarsprokið 22. október 2006

295. tbl. 10. árg.

L íklega eru hagfræðingar ekki jafn sammála um nokkurn hlut og þann að tollar og aðrar innflutningshindranir séu af hinu illa. Nú þarf það, að einhver hópur manna hefur svipaða skoðun, ekki að þýða að skoðunin sé rétt. Menn skyldu alltaf fara varlega í að treysta einhverju í blindni af þeirri ástæðu einni að einhverjir sérfræðingar halda því fram. Sérfræðingarnir hafa þó, þrátt fyrir þennan sjálfsagða fyrirvara, oft og tíðum rétt fyrir sér og svo er einmitt um þetta atriði. Og raunar er það svo að það eru ekki aðeins hagfræðingar sem hafa réttilega horn í síðu innflutningshafta, sama má sennilega segja um langstærstan hluta almennings, og stjórnmálamenn eru almennt talað flestir líka á móti hindrunum af þessu tagi.

„Tollvernd getur þjónað þröngum sérhagsmunum fárra til skamms tíma, en til lengri tíma litið skaðar hún alla og þjónar ekki hagsmunum neins.“

En þrátt fyrir að flestir séu á móti tollahindrunum og viðurkenni, að minnsta kosti í orði kveðnu, að þær valdi efnahagslegum skaða, þá hefur reynst ótrúlega auðvelt að koma þeim á – og ótrúlega erfitt að afnema þær. Þetta á alls ekki sérstaklega við hér á landi, í þessu eru flest ríki undir sömu sök seld. Tollabandalagið Evrópusambandið er raunar sérlega slæmt að þessu leyti, en ríki sem almennt eru talin hvað hlynntust frjálsum markaði eru alls ekki saklaus að þessu leyti. Má þar nefna Bandaríkin, þar sem sumir virðast halda að markaðurinn einn ráði öllu.

Nú er til að mynda rætt þar í landi hvort aflétta eigi innflutningshömlum af ryðfríu stáli, en árið 1993 voru lagðir á sérstakir „undirboðs“-tollar til að vernda stáliðnaðinn í Bandaríkjunum. Röksemdir um undirboð eru einmitt helsta vopn þeirra sem berjast fyrir tollvernd, en þær ganga út á að vernda þurfi einhvern tiltekinn innlendan iðnað sérstaklega þar sem hann eigi í ósanngjarnri keppni við erlendan iðnað. Erlendi iðnaðurinn nýtur þá gjarnan einhvers forskots, svo sem stærðarhagkvæmni eða jafnvel einhvers konar stuðnings hins opinbera.

Nú er svo komið – eins og fyrirsjáanlegt var – að tollvernd stálfyrirtækjanna bandarísku er farin að skaða verulega samkeppnishæfni bandarískra bílaframleiðenda. Þeir sex stærstu, General Motors, Toyota, DaimlerChrysler, Ford, Honda og Nissan, hafa nú sent frá sér kvörtun til yfirvalda og óskað eftir því að tollhindrununum verði aflétt svo að þeir geti betur keppt við erlenda framleiðslu. Störfin sem ætlunin var að vernda í stáliðnaðinum með því að setja á sérstaka tolla, eru þannig að öllum líkindum farin að útrýma störfum í öðrum iðnaði. Samkvæmt The Wall Street Journal starfa 130.000 manns við stálframleiðslu en 2,4 milljónir manna við varahluta- og bílaframleiðslu. Bílaframleiðendur kaupa um helming alls bandarísks ryðfrís stáls og ef að þeir hrökklast að hluta til úr landi vegna stáltollanna er ljóst að skaðinn er mikill. Stjórnmálin geta hins vegar stundum verið svo sérkennileg að þröngir sérhagsmunir ákveðinna svæða verði ofan á þó að öllum megi ljóst vera að það skaðar almenna hagsmuni.

Beljur og blikkbeljur eiga oft enga samleið. Um báðar gildir þó að vegna tollverndar eru þær dýrari en þær þyrftu að vera.

Dæmi um þetta má líka finna hér á landi og í því sambandi er nærtækast að líta til landbúnaðarkerfisins, sem raunar nýtur svipaðrar verndar víðast hvar annars staðar. Sú viðleitni stjórnmálamanna að styðja við bændur til að reyna að koma í veg fyrir að þeir hætti búskap, hefur reynst landsmönnum afar dýr. Menn verða þess varir í hvert sinn sem þeir kaupa matvörur að þær eru dýrari en þær þyrftu að vera vegna þess að margir  hafa talið æskilegt að vernda eina atvinnugrein á kostnað almennings.

Þessi tilraun til að koma í veg fyrir breytingar á búskaparháttum hefur þó alls ekki tekist. Mun færri stunda búskap nú en þegar verndin var tekin upp og stór hluti bænda lepur nánast dauðann úr skel, ef marka má talsmenn bænda. Aðgerðirnar hafa þess vegna algerlega mislukkast. Bændum hefur fækkað og þeir sem eftir eru hafa það slæmt. Og neytendur hafa það líka verra en ef hætt væri að vernda þessa innlendu framleiðslu fyrir erlendri samkeppni.

Tollvernd getur þjónað þröngum sérhagsmunum fárra til skamms tíma, en til lengri tíma litið skaðar hún alla og þjónar ekki hagsmunum neins. Bandaríski stáliðnaðurinn verður ekki betur settur ef bílaframleiðslan flyst að einhverju leyti úr landi. Það sem hann þarf á að halda er að vera samkeppnisfær. Sama má segja um innlenda landbúnaðarframleiðslu. Hún verður aldrei blómstrandi atvinnugrein ef hún byggir tilvist sína á viðskiptahömlum og lakari kjörum almennings í landinu.