Laugardagur 21. október 2006

294. tbl. 10. árg.

E ins og lesendur Vefþjóðviljans vita styður ritið einarðlega alla opinbera útþenslu og aukin opinber útgjöld. Það var með þetta í huga sem ákafur stuðningur var veittur við stofnun mikilvægs embættis talsmanns neytenda. Hver er enda betur til þess fallinn að gerast talsmaður neytenda og gæta þess að neytendur greiði ekki of hátt verð fyrir matvæli og fleira en ríkisvaldið, sem leggur á neytendur tolla og önnur gjöld, auk þess að hamla gegn samkeppni með löggjöf um vernd og sérréttindi? En þó að Vefþjóðviljinn hafi þannig stutt að sett yrði á fót ný ríkisstofnun til að unnt væri að færa rök fyrir frekari útgjöldum og þar með skattahækkunum, sá blaðið ekki fyrir aðrar jákvæðar afleiðingar þessarar nýju ríkisstofnunar.

Nú er sem sagt komin í ljós óvænt og ánægjuleg hliðarverkun af nýju stofnuninni. Hún er að framsóknarmaðurinn Gísli Tryggvason hefur fengið tækifæri til að sinna því í vinnutíma sínum að koma sér á framfæri, nokkuð sem engin leið hefði verið að tryggja honum ef hann hefði þurft að sinna einhverju ómerkilegra starfi, til að mynda í einkageiranum. Og það er heppilegt að þáverandi viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, skyldi átta sig tímanlega á kostum þess að skipa flokksbróður sinn Gísla í embættið. Ef einhver annar hefði hreppt hnossið er engin leið að fullyrða að viðkomandi hefði nýtt síðast liðið ár jafn vel til að kynna sjálfan sig og gefið svo kost á sér í framboð fyrir Framsóknarflokkinn. Það er að minnsta kosti alls óvíst að þeir af umsækjendum sem ekki voru kunnir framsóknarmenn hefðu farið þessa leið. Það er þess vegna gríðarleg gæfa fyrir neytendur á Íslandi, sem svo vel vill til að eru líka skattgreiðendur og kjósendur, að hafa haft svo forsjálan ráðherra í viðskiptaráðuneytinu þegar ákveðið var að stofna embætti talsmanns neytenda og ráða einmitt Gísla Tryggvason til starfans.

Það eina sem gæti valdið erfiðleikum í þessu efni og kann að koma í veg fyrir að Gísli setjist á þing, öllum landsmönnum til heilla, er ef Gísli Tryggvason talsmaður neytenda kemst í málið. Hann gæti fundið út að engin leið sé fyrir mann sem er jafn mikilvægum störfum hlaðinn, að gefa sér tíma í framboð með öllu sem því fylgir. Nú þegar neysla er meiri en nokkru sinni fyrr er ákveðin hætta á að talsmaður neytenda finni út að talsmaður neytenda verði að sinna köllun sinni og geti ekki sóað tíma sínum og neytenda í að afla sjálfum sér fylgis.

En talsmaður neytenda þyrfti svo sem ekkert að óttast þótt talsmaður neytenda setti honum stólinn fyrir dyrnar og segði hann hafa þarfari störfum að gegna en eigin framboði og þingmennsku. Hann fengi þá án vafa litla lofgjörð í leiðara Blaðsins frá ritstjóra þess, Sigurjóni M. Egilssyni, sem telur Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands mann að meiri að hafa hætt við þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar. Sigurjón telur mikilvægt að Alþýðusambandið sé hafið yfir flokkadrætti, sem það er auðvitað nú eftir að Gylfi er ekki lengur samfylkingarmaður. Hann er ekki frekar samfylkingarmaður nú en hann var það daginn áður en hann tilkynnti um framboð sitt. Og eins gæti Gísli hætt við framboð og þar með hætt að vera framsóknarmaður sem annar framsóknarmaður valdi úr hópi síður hæfra umsækjenda. Hann yrði þá, eins og Gylfi, að ógleymdum Sigurjóni sjálfum, alveg hlutlaus gagnvart pólitík, að ekki sé talað um flokkspólitík. Gott ef hann yrði ekki bara á svipstundu með öllu skoðanalaus um allt það sem gerðist í kringum hann.