Föstudagur 20. október 2006

293. tbl. 10. árg.

U mræður um hvalveiðar fara stundum út um víðan völl, sem þarf ekki að koma á óvart þegar miklar tilfinningar ráða umræðunni, en oft fátt annað. Í Kastljósinu í vikunni voru til að að mynda tveir menn að ræða saman um þessi mál, þeir Magnús Skarphéðinsson hvalveiðiandstæðingur og Kristján Loftsson forstjóri Hvals, sem er frekar hallur undir sjónarmið hvalveiðisinna. Þegar líða tók á samtalið og flest rök voru þrotin datt upp úr Magnúsi: „Ég veit bara ekki á hvaða plánetu þú ert Kristján.“

Getur verið að stjórnvöld hafi hlerað símann þegar E.T. hringdi heim?

Kristján tók þessu allvel, en taldi sig vera hér á jörðinni, þó að meiri óvissa væri um í hvaða stjörnuþoku Magnús héldi sig. Það er svo sem ekki að undra þótt menn viti ekki nákvæmlega hvar í óendanleikanum Magnús dvelur hverju sinni. Auk þess að vera hvalavinur, formaður Músavinafélagsins og hafa verið leiddur fram sem eitt helsta vitnið um ólöglegar hleranir hér á landi, er Magnús nefnilega fróðari en flestir menn um ferðir og atferli geimvera.

Það er ekki nema tæpur áratugur síðan, eða líklega stuttu eftir að Magnús varð þess áskynja að stjórnvöld hér á landi stunduðu ólöglegar hleranir, sem hann leiddi móttökunefnd við Snæfellsjökul. Hann hafði haft af því spurnir, líklega í krafti stöðu sinnar sem formaður Félags áhugamanna um geimverur, að líkur væru á að slíkar verur myndu lenda hjá jöklinum. Svo ótrúlega vildi reyndar til að þessu sinni að geimverurnar létu ekki sjá sig, en í samtali við Morgunblaðið upplýsti Magnús, að „oft þyrfti að bíða árum saman þar til að þetta bæri árangur svo menn skyldu ekki verða fyrir neinum vonbrigðum þótt þetta bæri ekki árangur að þessu sinni. Það kæmi að því að þær sýndu sig svo eftir yrði tekið.“ Hann greindi einnig frá því að við skyldum ekki gleyma hinu „að allmargir Snæfellingar væru þegar búnir að sjá geimskip og jafnvel geimverur sveimandi umhverfis Jökulinn. Bæri lýsingu þeirra mjög saman við alþjóðlega reynslu af þessu fyrirbæri og þar á meðal þær upplýsingar sem bandaríski herinn byggi yfir af þessu fyrirbæri og hefði m.a. verið filmaður. Þetta hefði raunar gerst um allan heim.“

Vefþjóðviljinn treystir því að Magnús sitji nú að heimili sínu og búi sig undir að verða, ásamt fyrrverandi ráðherrum og núverandi frambjóðendum jafnaðarmanna, kallaður fyrir hjá saksóknara til að bera fram órækar sannanir fyrir ólöglegum símhlerunum íslenskra stjórnvalda.