Fimmtudagur 19. október 2006

292. tbl. 10. árg.

Þ egar sjávarútvegsráðherra tók ákvörðun um að heimila hvalveiðar lá fyrir að sú ákvörðun væri bæði rétt, eðlileg og sjálfsögð. Hvalir eru meðal þeirra auðlinda sem mönnum er rétt að nýta og það var löngu kominn tími til að hætta að láta ómálefnaleg sjónarmið eða öfga- og æsingamenn ráða því hvaða auðlindir eru nýttar  hér á landi.

Eitt af því sem hefur óneitanlega komið á óvart í umræðunni um hvalveiðar er að margir þeirra sem tala um sig sem umhverfisverndarsinna, og segjast vilja það sem þeir kalla sjálfbæra nýtingu náttúrunnar, þeir hafa lagst gegn hóflegri nýtingu hvalsins. Þetta gera þeir ekki með þeim rökum að hvalir sem á að veiða séu í útrýmingarhættu – engum dettur í hug að þeir séu það. Þeir vilja bara alls ekki nýta þessa auðlind og skiptir þá engu þótt nýtingin sé það sem augljóslega má kalla sjálfbæra.

En þó að ekki hafi skort rök fyrir hvalveiðum, þá bættist í gær óvænt röksemd við málstað þeirra sem vilja skynsamlega nýtingu á hvalastofnunum. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var sagt frá því að tiltekinn prófessor við erlendan háskóla telji að ákvörðun um hvalveiðar geti haft áhrif á möguleika Íslands á að fá sæti Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Það væru vissulega ánægjuleg hliðaráhrif af þessari ákvörðun ef hún tryggði að Ísland yrði ekki kosið í þetta Öryggisráð, því að þangað eiga Íslendingar ekkert erindi. Framboð Íslands er þegar orðið skattgreiðendum allt of dýrt, en að bæta við háum kostnaði af setu landsins í ráðinu væri enn verra. Þar að auki eigum við ekkert erindi í slíkt ráð og höfum ekkert fram að færa umfram aðrar þjóðir sem til greina koma. Öryggisráðið yrði aðeins enn veikara og ótrúverðugra ef í því væri smáþjóð sem allir vita að skiptir sáralitlu máli þegar tekist er á um stór mál á alþjóðavettvangi. Og óskiljanlegt er að menn vilji draga þetta litla og nánast varnarlausa land inn í þau átök sem eiga sér stað í Öryggisráðinu.

Þeir Íslendingar sem ekki hafa þegar áttað sig á því, verða að fara að gera sér grein fyrir því að Íslendingar eru smáþjóð. Og þó að sjálfsagt sé fyrir menn að vera sáttir við hve vel hefur gengið hér á landi og hve framarlega þjóðin er á flestum sviðum, mega menn ekki gleyma því að í samanburðinum er yfirleitt mælt með hliðsjón af höfðatölu. Menn eiga að gleðjast þegar vel gengur, en það er lítið varið í að ofmetnast yfir afrekum sínum.