Miðvikudagur 18. október 2006

291. tbl. 10. árg.

S jaldan er ein báran stök. Þetta orðtak gæti vel átt við um útgjöld hins opinbera því að sjaldgæft er að til verði opinber útgjöld án þess að þau kalli á ný útgjöld, sem svo aftur kalli á ný útgjöld og svo koll af kolli þar til útgjöldin eru orðin eins og menn kannast við, allt of há. Ágæt dæmi um þetta má finna í fjölda þingmála og eitt þannig dúkkaði upp um daginn í formi fyrirspurnar frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni orrustuflugmanni. Spurningin lætur lítið yfir sér; Magnús spyr samgönguráðherra í mesta sakleysi út í strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur. Spurningin hljóðar svo: „Telur ráðherra ásættanlegt að strætisvagnar fari milli Akraness og Reykjavíkur fullskipaðir fólki þannig að farþegar standi jafnvel í vögnunum á leiðinni?“

Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá að tilgangur fyrirspurnarinnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi vill Magnús koma pólitískum andstæðingi sínum í klandur, en samgönguráðherra er sem kunnugt er þingmaður Norðvesturkjördæmis. Í annan stað, og það er líklega enn framar í forgangsröðinni, vill Magnús vekja athygli á sjálfum sér. Afleiðingarnar eru svo næstum eins augljósar, en þær eru auknar líkur á að útgjöld hins opinbera verði aukin.

Fyrir ekki alls löngu hófst sú undarlega starfsemi að aka strætisvögnum á milli Reykjavíkur og Akraness og rukka notendur aðeins innanbæjartaxta. Þetta væri nógu slæmt ef innanbæjartaxtinn endurspeglaði fullt verð, en því fer fjarri eins og menn þekkja. En þegar niðurgreiddur innanbæjartaxti er rukkaður fyrir langferð, þá er ekki við öðru að búast en margir vilji nýta sér þjónustuna, sem er þá nánast endurgjaldslaus ef miðað er við raunverulegan kostnað við að ferðina. Ekki þarf þá heldur að koma á óvart þótt vagninn fyllist stundum.

En eins og áður segir er líklegt að afleiðingin verði sú að hið opinbera leggi út í meiri kostnað við ferðirnar en ætlað var í fyrstu, þó að rökrétt niðurstaða af mikilli eftirspurn væri að hækka verðið, eða helst að hætta alveg að niðurgreiða ferðirnar. Líklegt er að það óheillaspor að hefja niðurgreiddar strætisvagnaferðir á milli Reykjavíkur og Akraness verði til þess að kostnaðurinn verði ekki aðeins sá sem ætlað var í upphafi, heldur miklu meiri. Bæði vegna aukins kostnaðar við ferðirnar til og frá Akranesi og einnig vegna þess að líklegt er að fleiri fái smám saman sömu niðurgreiddu þjónustu og Akurnesingar.

En margir þingmenn velta svona löguðu ekkert fyrir sér. Þeir vilja slá pólitískar keilur, bæði með því að lemja á andstæðingunum og með því að vekja athygli á sjálfum sér. Og þegar þetta eru markmið jafn margra þingmanna og raun ber vitni, þá halda útgjöld hins opinbera áfram að vinda upp á sig þar til þau verða að lokum alveg óbærileg. Til að koma í veg fyrir að það gerist þarf að skipta út útgjaldasinnunum og fá í staðinn þingmenn sem eru tilbúnir til að flytja tillögur um lægri útgjöld.