Miðvikudagur 25. október 2006

298. tbl. 10. árg.

Þ að líður varla sá fréttatími þessa dagana að þar sé ekki einhver gamall kommúnisti að lýsa óánægju sinni með að stjórnvöld hafi fylgst sérstaklega með honum og skoðanabræðrum hans á tímum kalda stríðsins. Hann lætur eins og hann sé bæði hneykslaður og sármóðgaður yfir ósköpunum og að þetta hafi verið algerlega tilhæfulaust. Engin ógn hafi stafað af kommúnistum. Auðvitað hljóta þetta að vera látalæti höfð í frammi til þess eins að reyna enn einu sinni að klekkja á pólitískum andstæðingum. Þessir menn vita auðvitað mætavel að af kommúnistum stafaði ógn og að þeir komu á ógnarstjórnum þar sem þeir gátu. Þetta rifja menn nú upp í Ungverjalandi, þar sem herir kommúnista drápu árið 1956 þúsundir óbreyttra borgara. Þessir ungversku borgarar höfðu ekkert til saka unnið annað en vilja búa við eðlileg skilyrði líkt og íbúar Vesturlanda.

Þrátt fyrir baráttu kommúnista á Vesturlöndum og vegna árvekni lýðræðissinna tókst að koma í veg fyrir að kommúnisminn breiddist vestur fyrir járntjaldið. Myndin er tekin í Ungverjalandi árið 1956.

Kommúnistar hér á landi stóðu líka nokkrum sinnum fyrir blóðugum átökum. Og þó að svo vildi til að enginn lét lífið þá slösuðust margir og jafnvel þannig að áverkarnir urðu varanlegir. Það var þess vegna full ástæða til að óttast íslenska kommúnista þegar þeir höfðu í gegnum árin ítrekað sýnt vilja sinn til að beita valdi og taka fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Núna fara menn samt sem áður mikinn í von um að enginn muni það sem gerðist fyrir fáeinum áratugum.

En hvernig skyldi nú standa á því að gamlir kommúnistar geta tjáð sig óhindrað í fjölmiðlum, hótað stjórnvöldum lögsókn og látið verða af slíkri lögsókn án þess að hætta nokkru? Það skyldi þó ekki vera að ástæðan sé einmitt sú að lýðræðislega kjörin stjórnvöld hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum sváfu ekki á verðinum heldur gættu öryggis landsins, bæði inn á við og út á við. Ekki skorti viljann hjá stjórnvöldum í ráðstjórnarríkjunum eða hjá talsmönnum þeirra á Vesturlöndum til að bylta stjórnskipulaginu. Ekkert höfðu þessi öfl á móti því að koma á sambærilegum stjórnarháttum og liðu undir lok í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu fyrir fimmtán árum.

Ástæðan fyrir því að gamlir kommúnistar hér á landi geta kvartað opinberlega er einmitt sú að þeir urðu undir í hinni pólitísku baráttu og að þess var gætt að þeim eða skoðanabræðrum þeirra tókst ekki að koma vilja sínum fram eftir ólýðræðislegum leiðum. Þetta er vissulega fagnaðarefni og að þessu leyti er líka ánægjulegt að sjá þessa menn koma fram og tjá skoðanir sínar.

Nú kunna einhverjir að segja, og án vafa réttilega, að það hafi alls ekki verið ætlun allra þessara manna að bylta stjórnskipulaginu hér með góðu eða illu. Margir þeirra hafi viljað fara friðsamlegar leiðir. En þó að þetta sé rétt, þá breytir það því ekki að sjálfsagt var að fara að öllu með gát. Enginn gat vitað hver vildi valdbeitingu og hver lét sér nægja lýðræðislegar aðferðir. Slíkt stendur ekki skrifað utan á mönnum, jafnvel ekki mestu góðmennum. Eða illmennum, ef út í það er farið. Þess vegna var það af illri nauðsyn sem þeir sem vildu verja borgaralegt og lýðræðislegt skipulag hlutu að fylgjast með þeim sem taldir voru ógn við þetta skipulag. Ef þeir hefðu ekkert gert hefðu þeir verið að bregðast skyldu sinni. Þetta hljóta allir sanngjarnir menn að viðurkenna. Sumum hentar hins vegar af einhverjum ástæðum að halda áfram að beita sér gegn þeim sem hafa staðið vörð um lýðræði og mannréttindi. Sem betur fer eru þeir frjálsir að því.