Fimmtudagur 12. október 2006

285. tbl. 10. árg.

Á dögunum minntist Vefþjóðviljinn – og ekki í fyrsta sinn – á tilraunir félagsmálaráðuneytisins til þess að hafa áhrif á það hvað fólk kýs í kosningum og hvað ekki, á það hverjir komast á þing og í sveitarstjórn og hverjir ekki. Þessar aðgerðir félagsmálaráðuneytisins eru framkvæmdar með “ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum”, nefnd sem auðvitað mætti eins kalla nefnd um minni hlut karlmanna í stjórnmálum, þó það verði auðvitað ekki gert. Svo virðist sem hvorki félagsmálaráðherra né fjölmiðlar sjái neitt athugavert við það að ráðherra noti skattpeninga til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninga og væri gaman að vita hvort því yrði tekið með sömu þögninni ef það fordæmi, sem þarna hefur augljóslega verið gefið, yrði síðar nýtt til að fjármagna ráðherraskipaða nefnd um aukinn hlut vinstrimanna, feitra, íþróttramanna eða búddista á alþingi. Að minnsta kosti er ljóst, að þeir sem sætta sig við opinbera nefnd um aukinn framgang kvenna í stjórnmálum gætu ekki mótmælt nýjum nefndum af neinum grundvallarástæðum.

En ríkið reynir ekki einungis að hafa áhrif á það hvernig fólk kýs. Fyrir utan hefðbundna reglusetningu sína gerir hið opinbera, ríki og sveitarfélög, alls kyns hluti til þess að hafa áhrif á það hvernig borgararnir fara með líf sitt, eigur og frítíma. Skattar, sem í raun réttri ætti ekki að nota til annars en að afla ríkinu tekna, eru notaðir til að stýra neyslu og vali fólks; umbuna einum, hegna öðrum. Samfylkingarmenn vilja meira að segja ganga enn lengra í því en nú er gert, en ýmsir þeirra hafa hvatt til sérstakra skatta á sælgæti svo foreldrar sem bjóða börnum sínum upp á “nammidag” geti lagt sérstaklega af mörkum til ríkisrekstrarins af því tilefni. Miklir skattar eru nú til dæmis þegar lagðir á tóbak, og verða auðvitað helst til þess að skerða önnur lífsgæði efnalítils reykingafólks sem þarf að neita sér um eitthvað annað þegar vindlingurinn verður dýrari og dýrari.

Og þegar bönnum og sköttum sleppir kemur áróður hins opinbera. Lýðheilsustöð er óðamála um það hvað er hollt og hvað ekki. Síðustu misserin hafa ofstækismenn einbeitt sér einna mest að stríðinu við reykingafólk en þegar því er lokið verður auðvitað ekki látið staðar numið heldur tekið til við næsta í uppeldi borgaranna. Sennilega lýkur þessu ekki fyrr en fólk fær sendan opinberan matseðil og verður skipað að borða eftir honum. Ráðlagður dagskammtur verður fyrirskipaður, enginn maður reykir, enginn drekkur sterk vín, allir fara snemma að sofa, börnin hafa eytt deginum á gjaldfrjálsum leikskóla þar sem faglærðir leikskólakennarar hafa rætt við þau allan daginn um fordóma, yngri systkini þeirra hafa verði á opinberri vöggustofu en hin eldri verið geymd í heilsdagsskóla svo báðir foreldrar hafi tíma til að vera í vinnunni og hlusta á jafnréttisfulltrúann ræða nýjustu tegundir eineltis.