Föstudagur 13. október 2006

286. tbl. 10. árg.

O ft er gripið til þess bragðs í opinberri umræðu hér á landi að halda því fram að tjáningarfrelsi sé skert, eða að menn óttist að tjá sig. Þeir sem halda þessu fram eru ekki að vísa til þeirrar raunverulegu skerðingar tjáningarfrelsisins að bannað er að minnast á tóbak nema til að vara við skaðsemi þess. Svo sem með því að segja „Marlboro“. Slíkir menn halda því hins vegar gjarnan fram að einhver „öfl“ komi í veg fyrir að einhver sem þeir viti af þori að tjá sig. Einn sem veit af slíkum mönnum lét fréttastofur taka við sig viðtöl í gær og „upplýsti“ enn og aftur að sími hans sem utanríkisráðherra hefði verið hleraður fyrir rúmum áratug.

Athyglisvert er að þessi maður, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, kaus að halda þessum „upplýsingum“ fyrir sig meðan hann var ráðherra, í stað þess að ræða málið í ríkisstjórn, þó ekki hefði verið nema til að vara samráðherra sína við. En nú telur hann hins vegar ástæðu til að greina frá hlerununum og segist í fyrradag hafa fengið staðfestingu símleiðis – nema hvað – á því að sími utanríkisráðuneytisins hafi verið hleraður. Maðurinn sem hringdi vill að vísu ekki gefa sig fram að sögn Jóns, en hafði vissu fyrir þessu þar sem hann hafði sjálfur laumast til að hlera símann á sínum tíma. Hinn meinti viðmælandi Jóns heldur sig hins vegar til hlés í málinu, enda má skilja Jón þannig að mikil hætta væri á ferðum fyrir hann að koma fram og tjá sig um málið.

Og annar maður, kunningi Jóns, sem á sínum tíma, að sögn Jóns, mun hafa mælt síma Jóns og fundið út að hann væri hleraður, vill alls ekki koma fram. Það stafar að sögn Jóns af því að hann býr í „skoðanakúgunarþjóðfélagi“. En Jón trúir þessum manni sem sagt og gerði víst líka á sínum tíma, sem varð þó ekki til þess að Jón ræddi þetta við samráðherra sína eða aðra. En skyldi hann hafa varað eftirmann sinn í stóli utanríkisráðherra við? Um það hefur hann ekki verið spurður, en hefði það ekki verið sjálfsögð skylda hans? Og hvað með samflokksmenn hans ef hann treysti öðrum flokkum ekki fyrir þessum upplýsingum, skyldi hann hafa varað þá við að þeir væru hugsanlega hleraðir? Eða var hann ef til vill ekki viss um hleranirnar á sínum tíma þó hann segist vera það nú, þegar hleranir eru skyndilega komnar í tísku?

Sama hvernig á málið er litið er það vitaskuld hið ótrúlegasta og með ólíkindum að fyrrverandi ráðherra skuli láta það frá sér fara sem Jón Baldvin hefur gert síðustu daga.

En tjáningarfrelsi er ekkert grín þó að menn gætu ætlað það af umræðunni í kringum símtöl Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það skiptir miklu máli að vernda tjáningarfrelsið og nöturlegt þegar menn tala um skoðanakúgun eða skerðingu tjáningarfrelsis þegar slíkt á alls ekki við. Eitt dæmi um varhugavert viðhorf til tjáningarfrelsisins var til dæmis nefnt í kvöldfréttum í gær þegar sagt var frá því að til stæði að gera það refsivert í Frakklandi að afneita því að Tyrkir hafi framið þjóðarmorð á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Nú skal ekki gert lítið úr því hversu ógeðfellt það getur verið og jafnvel svívirðilegt að afneita stórkostlegum glæpum. Besta dæmið er líklega það þegar einstaka maður lætur sig hafa það að afneita helförinni sem þjóðernissósíalistar í Þýskalandi stóðu fyrir laust fyrir miðja síðustu öld. Það er hins vegar vafasamt að ætla að refsa mönnum fyrir að halda slíkri fjarstæðu fram, enda er erfitt að sjá hvar slíkt ætti að enda. Ef stjórnvöld hafa heimild til að banna umræður um tiltekin atriði býður það hættunni á miklu víðtækari skoðanakúgun heim. Þess vegna er nauðsynlegt að menn fái að tjá sig og jafnvel að bera fram ógeðfelldar og sannanlega ósannar fullyrðingar. Aðeins með því móti má tryggja að öll sjónarmið heyrist og koma í veg fyrir að stjórnvöld misbeiti valdi sínu að þessu leyti. Þetta breytir því þó vitaskuld ekki að menn eiga að bera ábyrgð á orðum sínum.

Vegna alvöru mála sem þessara eru umræður um tjáningarfrelsið mikilvægar. Þess vegna er líka mikilvægt að menn sem gegnt hafa ábyrgðarstöðum gaspri ekki um skort á tjáningarfrelsi eða skoðanakúgun þar sem slíkt á augljóslega ekki við.