Miðvikudagur 11. október 2006

284. tbl. 10. árg.

R íkisstjórnin kynnti í fyrradag að virðisaukaskattur, vörugjöld og tollar verði lækkuð eða lögð af þann 1. mars á næsta ári. Samtals er ætlað að lækkunin muni nema 7 milljörðum króna miðað við heilt ár, eða nálægt 100 þúsund krónum fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Viðbrögðin við þessu hafa verið jákvæð, með undantekningu þó. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjórinn fyrrverandi sem hækkaði stöðugt skatta á Reykvíkinga þrátt fyrir loforð um annað, kvartar yfir því að lækkunin hafi verið of lítil og að hún hafi komið of seint. Líklega vegna þess að þá verður meira áberandi þegar Ingibjörg hækkar skatta ef hún kemst í ríkisstjórn næsta sumar. Aðrir eru almennt jákvæðari, jafnvel Guðjón A. Kristjánsson og Steingrímur J. Sigfússon, sem annars eru almennt ekki tiltakanlega ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar.

En hvað er það svo sem ríkisstjórnin ætlar að gera 1. mars? Hún ætlar að fella niður vörugjöld af matvælum, að vísu einungis öðrum matvælum en sykri og sætindum. Hún ætlar að lækka lægra virðisaukaskattsþrepið úr14% í 7% og lækka virðisaukaskatt af veitingaþjónustu úr 24,5% í 7%. Hún ætlar að lækka almenna tolla á innfluttum kjötvörum um allt að 40%. Og samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar lækkar matvælaverð um tæplega 16% við þessar aðgerðir. Gangi þetta eftir verður matvælaverð á Íslandi orðið sambærilegt við meðalverð á matvælum á Norðurlöndunum.

Þó að Vefþjóðviljinn hefði útfært skattalækkunina með öðrum hætti ef hann hefði verið spurður, telur hann sjálfsagt að fagna henni. Sjö milljörðum króna minna í ríkissjóð og sjö milljörðum króna meira í vösum skattgreiðenda getur ekki verið annað en ánægjulegt. Það er hins vegar athugunarefni hvernig skattadrottning Íslands kemst upp með að nöldra yfir því þegar aðrir lækka skatta og láta eins og hún hefði lækkað fyrr og meira. Það er nánast móðgun við heilbrigða skynsemi að hún skuli láta svona út úr sér – og með ólíkindum að fréttamenn skuli ekki spyrja hvers vegna hún telji sig hafa stöðu til að gagnrýna aðra þegar kemur að skattalækkunum.