Þriðjudagur 10. október 2006

283. tbl. 10. árg.

Þ að segir meira en mörg orð um Evrópusambandið að tíu aðildarríki þess eiga yfir höfði sér háar sektir vegna offramleiðslu á mjólk. Fréttavefur Morgunblaðsins hefur eftir talsmanni landbúnaðarmála Evrópusambandsins að offramleiðsla á mjólk sé þrálátt vandamál innan sambandsins. Ákvörðunina um sektir varði hann með því að án sektanna yrði framleiðslan enn meiri.

Skýringin á þessum undarlegheitum Evrópusambandsins er auðvitað sú að sambandið styrkir bændur og vill í staðinn að þeir framleiði ekki of mikið. Einhverjir mundu að vísu benda á að þetta „vandamál“ sýndi að styrkirnir væru óþarfir og að minnsta kosti að hægt væri að lækka þá, enda væri það heldur eðlilegri leið en að útdeila fyrst ríkulegum styrkjum og sekta svo þegar of mikið er framleitt.Væri ekki nær að hætta bæði styrkjunum og sektunum og láta bændur í friði. Þeir gætu þá framleitt án afskipta það sem neytendur vildu kaupa. Einhvern veginn er það töluvert geðfelldari hugmynd en sú að moka stórfé fram og aftur í gegnum Brussel. En þá fengju embættismennirnir og allir sérfræðingarnir að vísu minna að gera, svo slíkt fellur strax um sjálft sig.