Föstudagur 29. september 2006

272. tbl. 10. árg.

S amfylkingin er hörkuflokkur. Þess vegna ætlar hún að taka á landbúnaðarkerfinu af mikilli hörku og spara landsmönnum hundruð þúsunda króna á ári í matvælakaupum. Um þetta hefur formaður flokksins fjallað og þarf enginn að efast um að hugur fylgi máli, því að formaðurinn er ekki þekktur fyrir að segja eitt fyrir kosningar og gera annað eftir þær. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er til dæmis ekki þannig gerð að hún lofi fyrir borgarstjórnarkosningar að fara ekki í þingframboð en troði sér svo inn á framboðslista til þings framhjá þeim sem tóku þátt í prófkjöri.

Ingibjörg Sólrún er ekki heldur þannig gerð að hún tali gegn einstökum stóriðjuframkvæmdum áður en ákvörðun er tekin um þær, greiði svo atkvæði með framkvæmdunum í borgarstjórn, styðji þær í verki fyrir alþingiskosningar en snúist svo gegn þeim eftir kosningarnar. Og Ingibjörg Sólrún er auðvitað ekki heldur þannig að hún lofi því fyrir borgarstjórnarkosningar að lækka skatta en hækki þá svo jafnt og þétt upp í leyfilegt hámark á nokkrum árum.

Ingibjörg Sólrún er ekki heldur þannig að hún leggi á það mikla áherslu í kosningabaráttu að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en hætti svo við það eftir kosningar og lýsi því yfir á þingi útvegsmanna að hún muni engu vilja breyta nema með samþykki þeirra. Til þess er hún of mikil prinsippmanneskja.

Þar sem Ingibjörg Sólrún er svona gegnheil í öllu því sem hún gerir og segir í stjórnmálum þarf enginn að óttast að hún meini ekki það sem hún segir nú um lækkun matarverðs. Það er vitaskuld alveg öruggt að hún mun beita sér af alefli eftir kosningar fyrir því að matarverð lækki og skiptir þá engu hvort bændur missa spón úr aski sínum eða ekki. Hún lætur slíkt ekki hafa áhrif á sig eins og sést vel af stefnufestu hennar gagnvart útgerðarmönnum. Þess vegna er það líka sem neytendur þurfa ekki að hafa áhyggjur þó að Kristján L. Möller varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar bendi á að í tillögum Samfylkingarinnar standi að „þær verði framkvæmdar í fullu samráði við bændur“ og að hann haldi að það sé enginn vandi að finna sameiginlegar leiðir í samvinnu við þá.

Þessi þingmaður Norðausturkjördæmis og orðalag í tillögu Samfylkingarinnar munu ekki eiga roð í Ingibjörgu Sólrúnu þegar hún eftir kosningar fer fram af sinni alkunnu stefnufestu og keyrir í gegn umdeildar breytingar á landbúnaðarkerfinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun hvergi hvika og er allra manna líklegust til að standa við loforð sín og ná fram nauðsynlegum breytingum sem fela í sér lægri álögur á almenning. Hún hefur sýnt að hún telur ekki koma til greina að lofa lækkun á álögum fyrir kosningar nema standa við loforðið að kosningum loknum.