Fimmtudagur 28. september 2006

271. tbl. 10. árg.

H vers vegna eru góðar líkur á að Ómar Ragnarsson fyrrverandi hlutlaus fréttamaður verði umfjöllunar- og jafnvel viðtalsefni næsta tölublaðs Grapevine? Jú, ástæðan er einföld, hægt væri að nota hann til að bregða upp einkennilegri og neikvæðri mynd af Íslandi. Tímaritið Grapevine, sem dreift er endurgjaldslaust og á ensku hér á landi, væntanlega í þeim tilgangi að ná augum erlendra ferðamanna, virðist nefnilega hafa þá sérstöku ritstjórnarstefnu að bregða upp afbakaðri og afar neikvæðri mynd af Íslendingum og þá sér í lagi íslenskum stjórnvöldum. Og þetta er vitaskuld réttur útgefenda Grapevine. Þeir mega – sem betur fer – gefa út tímarit hér á landi sem virðist hafa það helst að markmiði að gera sem minnst úr þeim sem hér búa.

Ef þetta væri ekki leyfilegt – eða ef stjórnvöld reyndu með einhverjum óeðlilegum hætti að hafa áhrif á umræðuna um sig hér á landi – er hætt við að Ísland væri ekki í hávegum haft erlendis. En Íslendingar eru svo lánsamir – það gleymist stundum í hita leiksins – að búa í landi þar sem frelsi manna er mikið og réttur þeirra til að tjá hug sinn og fara sínu fram er með því mesta sem þekkist. Og Ísland er líka ofarlega á flestum þeim listum sem teknir eru saman um það sem jákvætt er. Þannig sagði World Economic Forum til að mynda frá því á dögunum að Ísland hefði færst upp um tvö sæti á lista yfir lönd með tilliti til samkeppnishæfni og væri komið í fjórtánda sæti, sem hlýtur að teljast allgott fyrir örlítið eyríki fjarri helstu mörkuðum heimsins.

Þetta kemur líklega mörgum á óvart, sér í lagi þeim sem lesa Grapevine reglulega, enda er ósennilegt að hækkun Íslands á þessum lista verði slegið upp í því blaðsins. Og eins og áður sagði þá er það sem betur fer réttur blaðsins að segja ekkert frá slíkum hlutum.

En það er ekki aðeins almenn sýnd óvild Grapevine í garð landsmanna sem gerir það líklegt að tímaritið fjalli um nýjustu afrek Ómars Ragnarssonar, heldur ekki síður mikill og sértækur áhugi blaðsins á Kárahnjúkavirkjun og þeim áhrifum sem  hún hefur á náttúru landsins. Og það er svona álíka mikið mark á því takandi ef þetta blað segist fjalla hlutlaust um Kárahnjúkavirkjun og ef Ómar Ragnarsson segist hafa gert það síðustu mánuði og ár. Það væri auðvitað algert ómark að halda slíku fram. Ómark, og um leið það sem búast má við eftir undarlega atburði síðustu daga.