Miðvikudagur 27. september 2006

270. tbl. 10. árg.
Þegar maður fer þarna upp eftir, á þetta svæði, þá skilur maður hvers vegna Ómar hefur verið með þessa þráhyggju síðustu ár.
– Viðmælandi Ríkissjónvarpsins í Kastljósi í gærkvöldi

Ríkissjónvarpið auglýsti í gærkvöldi eins og það gat göngu nokkra sem efnt var til þá um kvöldið og kennd við einn starfsmann Ríkissjónvarpsins. Var með hreinum ólíkindum hversu fréttnæmt þótti að ganga myndi fara fram, dagskrá ítrekað rofin til að senda beint út frá væntanlegum gönguslóðum og fréttamenn á staðnum að ræða við þekkt fólk sem myndi ganga. Eitt er nú að fréttamenn segi frá því sem farið hefur fram, en þegar þeir eru farnir að gera allt sem þeir geta til að hafa áhrif á þatttöku í viðburðum – og það meira að segja viðburðum þar sem eftir á þykir ekkert fréttnæmt nema fjöldi viðstaddra -, þá eru þeir komnir langt út fyrir eðlileg mörk. Hvernig ætli það sé, ætli aðrir fái sömu þjónustu ef þeir vilja halda fundi til að leggja áherslu á kröfur sínar? Ekki verður því trúað að starfsmenn fréttastofanna fái betri þjónustu en aðrir. Og ekki heldur að Ríkissjónvarpið geri með öðrum hætti upp á milli þeirra sem halda opinberar samkomur til stuðnings málstað sínum. „Við rjúfum hér þáttinn til að senda út frá Hljómskálagarðinum en þar verður á eftir fundur stuðningsmanna Kolbeins kafteins í komandi prófkjöri Lýðræðisflokksins. Hingað er kominn Hörður stýrimaður, sem hefur barist með Kolbeini undanfarin ár, Hörður þú átt von á fjölmenni?“

Eitt viðtal Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi – í einni af þremur beinum útsendingum frá miðbænum – var athyglisvert. Þar kom maður og sagði frá því að þegar menn hefðu farið „upp eftir, á þetta svæði“, þá skildu menn hvers vegna Ómar hefði „verið með þessa þráhyggju síðustu ár“. Ómar sjálfur segir hins vegar, og meinar það í einlægni, að hann hafi verið fullkomlega hlutlaus í störfum sinni á síðustu árum. Þarna var hins vegar kominn maður sem hafði talið Ómar vera með þráhyggju undanfarin ár; þráhyggju sem hann skildi hins vegar núna eftir að hafa farið á svæðið og skoðað.

Og hver er hann nú sem telur Ómar hafa verið með þráhyggju, hvaða Landsvirkjunarmaður er það nú sem gaf framgöngu Ómars síðustu ár þessa einkunn?

Hann heitir Andri Snær Magnason og er rithöfundur.

Þessi dómur Andra um Ómar – þó Andri telji „þráhyggju“ hans skiljanlega – minnir á manninn sem skrifaði það í fræðirit að á Kringilsárrana væri fátt að sjá fyrir ferðamenn og það sem þar væri að sjá mætti betur sjá annars staðar. Sá maður var Hjörleifur Guttormsson, en þetta álit sitt gaf hann áður en Kringilsárrani varð að pólitísku atriði, dýrgrip sem aldrei mætti „fórna“.

Hvað ætli yrði sagt ef Geir Haarde kæmi og segði að á Kringilsárrana væri fátt markvert og Ómar hefði verið með þráhyggju undanfarin ár?