Þriðjudagur 26. september 2006

269. tbl. 10. árg.

Það er fagnaðarefni fyrir alla vini og velvildarmenn Ómars Ragnarssonar að honum hafi loks tekist að gera upp sinn hug í Kárahnjúkamálinu og sé ekki lengur hlutlaus. Ómar hefur, að eigin sögn, hingað til verið alveg hlutlaus í fréttum sínum af virkjanaáformum og því hafa landsmenn ekki fyrr en nú vitað hvort hann væri hlynntur þeim eða andvígur – eða raunar hvort hann hefði einhverja skoðun yfirleitt.

Annars hefur ákvörðun Ómars, að frá og með september 2006 sé hann hættur að vera hlutlaus um Kárahnjúkavirkjun, þegar valdið skriðu þar sem hinir og þessir hafa ákveðið að fara að dæmi hans. Þannig hefur Karl Sigurbjörnsson biskup boðað til blaðamannafundar klukkan tvö í dag þar sem hann ætlar að segja skoðun sína á syndinni og eru þegar uppi miklar getgátur um hvort hann reynist með henni eða á móti. Í kjölfarið mun Sveinn Rúnar Hauksson loks taka afstöðu í deilu Ísraela og Palestínumanna. Að fundi Karls og Sveins loknum mun Hörður Torfason gefa stutta yfirlýsingu, en efni hennar er leyndarmál.