Mánudagur 25. september 2006

268. tbl. 10. árg.

Það var kannski ekki við öðru að búast en að umræðan um hina merku grein Þórs Whiteheads í nýjasta hefti Þjóðmála yrði fljótlega að íslenskum fréttamannasið að fjasi um misskilning, aukaatriði og rangtúlkanir. Engu að síður kom NFS á óvart í fréttum sínum á laugardagskvöldið. Fréttir kvöldsins hófust á því að staðhæft var að sagnfræðingur segði að öryggisþjónustan sem Þór fjallar um, hefði verið leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins. Þegar fréttin svo kom, var rætt við Guðna Th. Jóhannesson og var þar vissulega reynt að fá hann til slíkra yfirlýsinga. Spurningu fréttamanns um það hvort öryggisþjónustan hefði verið leyniþjónusta hægri manna, svaraði hann á þann veg að það væri alls ekki víst að Hermann Jónasson hefði vitað um starfsemina og mjög ólíklegt að Ólafur Jóhannesson hefði gert það þegar hann var forsætisráðherra.

Já hvað vissu þessir menn? Eina vísbendingu fá finna í grein eftir Þór Whitehead prófessor sem birtist í nýjasta hefti Þjóðmála og var raunar tilefni fréttarinnar og viðtalsins. Á fyrstu síðu greinarinnar segir Þór meðal annars:

Sannast sagna eru nú liðin tæp sjötíu ár frá því að Hermann Jónasson forsætis- og dómsmálaráðherra fól lögreglustjóranum í Reykjavík að koma upp „eftirgrennslanakerfi“ í Reykjavík í aðdraganda styrjaldar í 1939. Þetta var einn liður í áætlun Hermanns um að efla lögregluna til mótvægis gegn kommúnistum og nasistum, sem hér gengju erinda flokksríkjanna þýsku og sovésku og ógnuðu innra öryggi landsins.

Hermann Jónasson var auðvitað sakaður um eitt og annað á sínum ferli. En að hann hafi stofnað leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins, það er alveg nýtt.

Ígær var guðsþjónusta í Laugarneskirkju og ræðumaður dagsins, Hildur Eir Bolladóttir fór þar mikinn. Umræðuefnið var vitaskuld Kárahnjúkavirkjun sem ekki hefur verið nægilega rædd. Fréttamenn fréttu strax af ræðunni, enda vanir að fylgjast vel með messum og sögðu frá því að Hildur Eir teldi að Kárahnjúkar væru „heilög sköpun Guðs“.

Nú vill Vefþjóðviljinn auðvitað ekki deila um það atriði. Hitt vill blaðið nefna, að sama mætti nú segja um fleiri staði á þessum hnetti og öðrum. Fjöll og fljót, vellir og hlíðar, dalir og merkur, allt er þetta sköpunarverk með sama hætti og Kárahnjúkar. Meira að segja grasbalinn þar sem heimili Hildar Eirar Bolladóttur stendur, hann er sköpunarverk sama Guðs og Kárahnjúkar. Maðurinn hefur leyft sér að nýta þetta sköpunarverk í eigin þágu, stundum af hreinni lífsnauðsyn, stundum af tómri löngun í meiri lífsgæði. Sá sem skapaði landið og miðin, Kárahnjúka og Kumbaravog; hefur Hann einhvers staðar sagt að ekkert af þessu megi maðurinn nýta?