Helgarsprokið 24. september 2006

267. tbl. 10. árg.

Í raun er það sundrungin sem sameinar okkur”, sagði formaður Sameiningar í viðtali í útvarpi Matthildi hér á árum áður. Í máli fréttamanns Matthildar kom fram að merki félagsins sýndi hverja höndina upp á móti annarri.

„…sem lögðu á sig mikið andlegt erfiði til að reyna að sannfæra lesendur sama rits um að í raun hefðu hægrimenn engan rétt til að leggja neitt til þessara mála. Stefna hægrimanna hlyti, nánast samkvæmt skilgreiningu, að vera náttúrufjandsamleg gróðahyggja sem engu eirði.“

Allt var þetta auðvitað spaug og spé, en þarna hittu Matthildingar sem oft áður naglann á höfuðið. Það virðist einkenna vinstrimenn, ekki bara hér á Íslandi, að þrátt fyrir að þeim sé gjarnt að nota forskeytið „sam“ er það sjaldnast svo að þeir standi saman um nokkurt mál. Hvort sem flokksbrotin heita Sameiningarflokkur alþýðu eða Samfylking þá virðist vera sem þeir geti aldrei setið á sátts höfði, að minnsta kosti ekki þegar kemur að veigamestu málunum. Nýlegt dæmi um þetta eru blaðaskrif vinstrimanna um umhverfismál. Nú snerta umhverfismál flesta, hvort sem þeir standa til hægri eða vinstri í pólitík. Í Lesbók Morgunblaðsins í sumar voru dregnar fram stórkanónur vinstri-intellígensunnar úr Háskóla Íslands, sem lögðu á sig mikið andlegt erfiði til að reyna að sannfæra lesendur sama rits um að í raun hefðu hægrimenn engan rétt til að leggja neitt til þessara mála. Stefna hægrimanna hlyti, nánast samkvæmt skilgreiningu, að vera náttúrufjandsamleg gróðahyggja sem engu eirði.

Það kom sérstaklega illa við þá þegar það var rifjað upp að það voru í raun þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með Birgi Kjaran í broddi fylkingar, sem höfðu forgöngu á Alþingi um náttúruverndarmál. Hvað sem þeim sjónarmiðum líður hefði mátt ætla að þarna gætu vinstrimenn þó sameinast gegn óvininum, -en viti menn? Ekki leið á löngu þar til vinstrimenn voru komnir í hár saman. Í vikunni skrifaði Dofri Hermannsson grein í Morgunblaðið þar sem hann útlistar stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum, en verður reyndar að eyða mestu púðrinu í að þvo hendur flokksins af helstu ákvörðunum sem flokkurinn hefur tekið og snerta umhverfismál á síðustu árum.

Þrátt fyrir þær gömlu syndir telur Dofri að Eyjólfur hafi hresst til muna og hafi nú skýra og góða stefnu í þessum málum. Nú hefði mátt ætla að grein Dofra hefði farið mest fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum, -en þá virðast samfylkingarmenn telja mestu andstæðinga sína, en sú varð síður en svo raunin. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, var fljót til og skrifaði harðorða grein þar sem hún ræðst harkalega að Samfylkingunni og telur hana helst til fljóta að velja sér ný föt úr klæðaskáp keisarans. Þetta sé upphlaup vegna komandi kosninga og að tillögur Samfylkingarinnar séu lítils virði. Þetta er orðin hin skemmtilegasta ritdeila og kannski er það eina sem dregur úr skemmtuninni er hvað þetta var hryllilega fyrirsjáanlegt. Enn á ný kemur í ljós að vinstrimenn á Íslandi geta aldrei komið sér saman um neitt, nema kannski það eitt að leggja áherslu á „sam“-þetta og hitt til notkunar á auglýsingastofum. Það liggur við, ólíkt útvarpi Matthildi, að þetta sé hætt að vera fyndið.