Laugardagur 30. september 2006

273. tbl. 10. árg.

N ýjar tölur Hagstofunnar um fjárhag hins opinbera sýna glöggt ástæðu þess að rétt er að gjalda varhug við kröfum um að færa fleiri verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Og tölurnar sýna líka að lausnin á vanda sveitarfélaganna er ekki að sameina sveitarfélög og stækka þau, vegna þess að tölurnar byggja á stærstu sveitarfélögum landsins, með um 2/3 hluta íbúa þess, og hafa verið uppfærðar á heildina. Ef marka má þessar nýju tölur var ríkissjóður rekinn með 17,8% tekjuafgangi á öðrum fjórðungi ársins, en sveitarfélögin voru á sama tímabili rekin með 8,2% tekjuhalla.

Ef horft er saman á ríki og sveitarfélög á öðrum ársfjórðungi voru tekjurnar 133 milljarðar króna og tekjuafgangurinn 15 milljarðar króna, eða 11%. Þetta er út af fyrir sig ágætur afgangur, en miklu minni afgangur en hjá ríkinu einu vegna hallareksturs sveitarfélaganna. Ef menn leika sér með tölur og gera ráð fyrir að sumum sveitarstjórnarmönnum – og jafnvel ýmsum öðrum stjórnmálamönnum – yrði að ósk sinni um að veigamikil verkefni yrðu færð frá ríki til sveitarfélaga hefði dæmið á öðrum fjórðungi getað litið svona út:

<!––>

Ríki og sveitarfélög á 2. ársfjórðungi Núverandi skipting verkefna Helmingur verkefna ríkis færður til sveitarfélaga Helmingur verkefna sveitarfélaga færður til ríkis
Tekjur 133,1 133,1 133,1
Gjöld 118,5 131,4 114,0
Afgangur 14,6 1,7 19,1

Segjum að ríkið flytti helming verkefna sinna yfir til sveitarfélaganna, sem er ekkert fráleitt miðað við kröfur sem heyrst hafa um flutning skóla og heilbrigðisþjónustu, og báðum aðilum hefði gengið jafn vel og áður við reksturinn, þá hefðu sameiginleg útgjöld hækkað úr 118,5 milljörðum króna í 131,4 milljarða króna. Tekjuafgangurinn hefði hrapað úr 14,6 milljörðum króna í 1,7 milljarða króna, eða úr 11% af tekjum í 1,3% af tekjum. Afgangurinn væri með öðrum orðum nánast horfinn ef sveitarstjórnarmönnum hefði verið treyst fyrir því að taka að sér helming þeirra verkefna sem ríkið sinnir nú.

Lítum svo á þetta úr hinni áttinni, það er að segja ef ríkið tæki til baka hluta af verkefnum sveitarfélaganna, til dæmis helminginn. Þetta er ekki fráleitt hlutfall ef horft er á stór verkefni á borð við grunnskóla. Við þessa tilfærslu verkefna mætti gera ráð fyrir að sameiginleg útgjöld ríkis og sveitarfélaga lækkuðu úr 118,5 milljörðum króna í 114 milljarða króna og að tekjuafgangurinn hækkaði úr 14,6 milljörðum króna í 19,1 milljarð króna, eða úr 11% í 14,4% af heildartekjum.

Rekstrarárangur ríkis og sveitarfélaga bendir því eindregið til þess að menn ættu að varast að líta á það sem lausn á rekstrarvanda hins opinbera að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Ef einhverju ætti að breyta í verkaskiptingunni er árangurinn miklu frekar vísbending um að hagstæðara væri fyrir skattgreiðendur að flytja verkefni í hina áttina. Hitt er svo annað mál að umræðan ætti ekki að snúast um að flytja verkefni frá einum opinberum aðila til annars, heldur frá hinu opinbera til einkaaðila. Þannig mætti ná fram raunverulegum árangri í rekstri, lækka kostnað og bæta um leið þjónustu. Þetta er sú leið sem stjórnmálamenn ættu að horfa til.