Mánudagur 18. september 2006

261. tbl. 10. árg.

Á hugamenn um væl eiga fáa staði öruggari en leiðara Morgunblaðsins. Ef einhver ber sig aumlega og vill hærri opinber framlög til starfsemi sinnar, þá eru meiri líkur en minni á því að hann fái stuðningsleiðara innan tveggja daga. Þó einstaka málaflokkar séu að vísu ennþá undanskildir þá er þróunin nú hröð í þá átt að varla megi finna það fjárhús landsins þar sem meira er jarmað en í leiðurum Morgunblaðsins. Í síðustu viku var þar fjallað um ráðagerðir um hvalveiðar og auðvitað varað eindregið við því að hafnar yrðu veiðar á tegundum sem „alþjóðleg samtök umhverfisverndarsinna“ hafi „tekið upp á sína arma“.

Auðvitað má ekki styggja þau. Og slík er hræðslan við umhverfissamtök að litlu virðist skipta hvaða hagsmuni svokallað Ísland kann að hafa af málinu ef „alþjóðleg samtök umhverfisverndarsinna“ hafa talað. Um það segir Morgunblaðið einfaldlega: „Þau hafa sýnt styrk sinn aftur og aftur. Það er lítið vit í því fyrir okkur Íslendinga að segja þessum alþjóðasamtökum stríð á hendur með því að hefja hvalveiðar á ný. Það gæti komið til greina ef þjóðin ætti afkomu sína undir hvalveiðum.“ Þessi yfirlýsing Morgunblaðsins er með algerum ólíkindum en segir meira en margt annað um það hvernig blaðið hefur þróast yfir á síðustu misserum. Slík er ákefðin að þóknast umhverfisverndarsamtökum að jafnvel þó „þjóðin ætti afkomu sína undir hvalveiðum“ þá gengi blaðið ekki lengra en svo að veiðarnar „kæmu til greina“. Meira að segja þó „afkoma þjóðarinnar“ væri í húfi, þá væri fyrsta val Morgunblaðsins að þóknast „alþjóðlegum samtökum umhverfisverndarsinna“.

Hvaða afstöðu ætli núverandi blaðamenn Morgunblaðsins hefðu tekið á tímum þorskastríðanna? Þá var nú ekki verið að eiga við alþjóðleg samtök skeggjaðs fólks á sandölum heldur sjóher hennar hátignar Bretadrottningar. Og ekki deilt um veiðar innan heldur utan almennt viðurkenndrar lögsögu.

Annað í leiðaranum er í sömu átt. „Ef alþjóðasamtök umhverfisverndarsinna hæfu markvissa baráttu gegn okkur“, segir Morgunblaðið,  „er nokkuð ljóst , að við mundum verða fyrir umtalsverðu fjárhagslegu og siðferðilegu tjóni.“ Það má vel hugsa sér, að markviss barátta stórfyrirtækja eins og umhverfisverndarsamtaka gæti valdið íslenska þjóðarbúinu, sem svo er kallað, nokkru tjóni. En hvernig getur barátta þessara samtaka valdið Íslendingum siðferðilegu tjóni? Ef ákvörðun um hvalveiðar er siðferðilega góð eða slæm, þá breytist það ekki við það að einhver samtök hefji baráttu gegn henni. Ef að það er siðferðilega ámælisvert að veiða tiltekin spendýr sér til matar, þá breytir barátta fjarlægra samtaka engu um þá siðferðilegu niðurstöðu.