Helgarsprokið 17. september 2006

260. tbl. 10. árg.

F jölmiðlar sögðu frá því í gær – eins og merkilegum tíðindum – að tveir menn hefðu farið að byggingarsvæði Kárahnjúkavirkjunar og flaggað þar í hálfa stöng. Síðar um daginn birtu fjölmiðlar svo yfirlýsingu frá einhverjum sem greindi frá þeim stórmerkjum að með tiltækinu hefði átt að mótmæla blablabla og vekja athygli á blablabla. Það er með hreinum ólíkindum hvað fjölmiðlamenn spila með því liði sem stendur fyrir svokölluðum mótmælum á Austurlandi. Það er nákvæmlega ekkert fréttnæmt við þessi „mótmæli“ og hreinlega óeðlilegt að fréttatímar landsins séu opnaðir í hvert skipti sem einhverjum þessara manna þóknast að hnerra.

Mótmæli segja auðvitað ekki annað en að einhverjir menn séu svo mjög á móti tilteknu atriði að þeir séu reiðubúnir að hafast eitthvað gegn honum; mæta á fund, fara í kröfugöngu, halda á spjaldi. Það liggur alveg fyrir margsannað að hópur manna er og verður svo mjög á móti virkjunum og stórum atvinnufyrirtækjum sem þurfa orku frá þeim, að hann verður alltaf til í tusk. Og svo lengi sem fréttamenn tryggja þessum hópi útsendingar og frásagnir þá sér hann sér alltaf hag í halda áfram. Og undir þessu situr það fólk sem kveikir á fréttatímum til þess að vita hvort eitthvað nýtt er í veröldinni. „Við skjótum hér inn frétt sem var að berast: þvert á það sem áður var talið, þá er ekki einhugur um Kárahnjúkavirkjun. Við endurtökum: það ekki einhugur um Kárahnjúkavirkjun. Þetta kom í ljós í dag þegar Dögg Gná Jónudóttir myndhöggvari las ljóð þessu til staðfestingar á Austurvelli. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstrigrænna, sagði í símaviðtali frá Kringilsárrana nú fyrir stundu að þetta setti málið allt í uppnám og hann myndi þegar fara í kaffi heim til Guðjóns A. Kristjánssonar til að ræða samstarf sitt í framhaldinu. En nú aftur að kvennaboltanum, Adolf Ingi.“

„Það er sífellt verið að nota fréttamenn. Þingmenn hringja í þá og segjast vera til í að bera einhverja sökum í skiptum fyrir hálfa mínútu í sjónvarpi. Aðrir vita að stóryrði á bloggsíðum geta gert svipað gagn – og senda fjölmiðlum jafnvel fréttatilkynningar um nýjustu pistla sína til öryggis.“

Fréttamenn eiga að segja frá því sem er fréttnæmt – en þeir eiga að forðast að hafa bein áhrif. Ekki þó í þeim skilningi að þeir þurfi sérstaklega að forðast að fréttir hafi áhrif á áhorfendur eða lesendur. Auðvitað bregst fólk við því sem er í fréttum og byggir skoðanir sínar á ýmsu af því sem þar kemur fram. Það sem hins vegar getur verið óeðlilegt er þegar vissan um upplestur fréttamanna stýrir gjörðum manna og knýr þá áfram. Úr verður eilífðarvél þar sem fréttamennirnir og hinir sjá hvorir öðrum fyrir mínútum. Það er ekkert fréttnæmt við að einhver fari og mígi á Kárahnjúkavirkjun eða flaggi þar eða setji upp borða. Enda er hann ekkert að fara þangað til þess. Hann fer til þess að fá einnar mínútu neikvæða opinbera umræðu um virkjunina. Og fréttamaðurinn útvegar honum hana, og fær í staðinn mínútu sem hann þarf að skila á hverjum degi. Ef engin frétt yrði sögð, þá dytti engum manni í hug að fara í hundraðasta sinn og reka niður skilti. Fréttamenn eru beinlínis farnir að kalla á aðgerðir með því að slá þeim alltaf upp.

Og svo miklu alvarlegri mál séu nefnd: hvaða áhrif ætli fréttaflutningur af hermdarverkum í Írak hafi á ákafann í þeim sem sjá eftir harðstjórn Husseins eða hata Vesturlönd af öðrum ástæðum? Það er ekki gott að segja. Það dregur varla úr mönnum að ræna fólki að vita að vestrænar sjónvarpsstöðvar munu ekki hika við að birta myndir af fólkinu þar sem það biðst vægðar og með hnífinn á hálsinum fordæmir eigin stjórnvöld.

Það er sífellt verið að nota fréttamenn. Þingmenn hringja í þá og segjast vera til í að bera einhverja sökum í skiptum fyrir hálfa mínútu í sjónvarpi. Aðrir vita að stóryrði á bloggsíðum geta gert svipað gagn – og senda fjölmiðlum jafnvel fréttatilkynningar um nýjustu pistla sína til öryggis. Og þetta kallar auðvitað á ógeðfelldari stjórnmálaumræður en ella. Stóryrði færa stjórnmálamanni það sem honum er dýrmætast af öllu: mínútur í fréttum, tilvitnun í dagblaði. Þegar stóryrði, svæsnar ásakanir og útúrsnúningur eru betra agn en hófsamur málflutningur, þar sem ekki er annað fullyrt er ræðumaður raunverulega veit, þá fyllast fréttir og umræðuþættir af þeirri gerð stjórnmálamanna sem er til í að gera það sem gera þarf. En eru það endilega þeir sem mest mark er takandi á?

Fjölmiðlar læra fljótt hverjir eru til í að gapa og hverjir ekki. Það er ekki bara tilviljun sem veldur því að sumir stjórnmálamenn eru alltaf í fréttum. Eða gestir umræðuþátta. Þeir eru til í að slengja einhverju fram, einhverjum staðhæfingum sem engin leið er að taka á, eða þar sem útskýringin verður svo flókin að fæstir hafa tök á að setja sig inn í hana, nú eða þá einhverju sem verður rekið ofan í þá næsta dag; en hvernig sem er, þá fá þeir fjölmiðlamínúturnar sínar. Með sama hætti og fjölmiðlar kalla á það einhver fari og klifri upp í krana við Kárahnjúka þá ýta þeir undir að Alþingi fyllist af stjórnmálamönnum sem ná ekki upp í nefið af sér af hneykslun yfir því að hafa ekki fengið að líta framhjá skýrslu Gríms Björnssonar sem sýnir og sannar að stíflur munu springa og hvolfin ganga úr skorðum og Íslendingar munu því til einskis fórna Kringilsárrana, helgasta bletti fósturjarðarinnar þar sem Kópavogsfundurinn var haldinn og Fjölnismenn mótmæltu allir.