Laugardagur 16. september 2006

259. tbl. 10. árg.

T veir menn fóru upp á Kárahnjúkavirkjun og drógu fána í hálfa stöng. Tveir menn. Þeir sendu frá sér yfirlýsingu í tilefni „aðgerðanna“, eins og slík hrekkjabrögð eru gjarnan nefnd, þar sem þeir lýstu því í löngu máli að þeir væru ósáttir við virkjunina. Ekkert nýtt kom fram í yfirlýsingunni, aðeins sama óánægjan með þessa framkvæmd og þulin hefur verið upp áður í óteljandi skipti í Ríkisútvarpinu. Þessir tveir menn fengu þessa löngu yfirlýsingu lesna upp í morgun eins og um frétt væri að ræða. Þó hafði ekkert fréttnæmt gerst, aðeins það að tveir menn vildu láta lesa skoðanir sínar upp í fréttatíma Ríkisútvarpsins, og líklega víðar.

Skyldu allir tveggja manna hópar á landinu fá slíka þjónustu hjá Ríkisútvarpinu? Hvað ef aðeins annar mannanna hefði nennt að vakna í morgun?

Getur verið að skoðanir fréttamannanna hafi litað fréttamatið?

L andbúnaðarráðherra hefur úthlutað 330 milljónum króna til byggingar 28 reiðhalla um land allt. Þetta er aðeins hluti kostnaðarins og skattgreiðendur á hverjum stað munu fá að punga út drjúgum hluta þess sem upp á vantar auk þess að greiða sinn hluta af þessum 330 milljónum króna. Landbúnaðarráðherra er afar sáttur með að fá að gefa þessar 330 milljónir króna sem hann á ekki og hefur trú á „að þetta eigi eftir að hafa gríðarleg áhrif til að jafna aðstöðu hestamanna,“ eins og Morgunblaðið hafði eftir honum. Hann telur líka að þetta eigi eftir að efla ungliðastarfið og kennslustarfið, auk þess sem þjálfun hestanna eigi eftir að batna.

Þar með er málið afgreitt, fréttinni lokið og tilgangi landbúnaðarráðherra náð. Honum tókst að kaupa sér auglýsingu fyrir 330 milljónir króna af annarra manna fé og um leið að kaupa sér velvilja afmarkaðs þrýstihóps kulsælla hestamanna sem mun nýta sér þessar skemmur til innreiðar.

En þar sem fjölmiðlar leita nú gjarnan álits hinna og þessara á ýmsu því sem gert er, hvernig væri þá að spyrja skattgreiðendur af og til að því hvernig þeim finnist að greiða fyrir kosningabaráttu stjórnmálamanna sem hafa komið sér í þá stöðu að hafa yfir skattfé að ráða? Eða verða skattgreiðendur að fara í tveggja manna hópum upp á þak húsa sem byggð eru fyrir opinbert fé til að á þá sé hlustað?