Föstudagur 15. september 2006

258. tbl. 10. árg.

Þ að er ekki aðeins íslenskum helgarpöbbum sem þykir gott að fara með börnin í húsdýragarðinn, skoða lömbin og fara svo í lambasteikina hjá mömmu eða ömmu. Víða um veröld fer alls kyns fólk að skoða alls kyns dýr og pantar svo fillet af sama dýri í kvöldverð. Það er auðvitað mjög mikilvægur hluti af ferðaþjónustu um allan heim að bjóða ferðalöngum upp á spennandi rétti á veitingastöðum. Það kemur fáum á óvart að menn bæði nýti og njóti dýranna. Og eins og það hljómar undarlega í fyrstu þá eru þær skepnur sem oftast lenda á matardiski mannsins síst í útrýmingarhættu. Þetta er þó að því gefnu að nýtingar- og eignarréttur á dýrunum sé sæmilega skýr. Hænur og nautgripir bóndans eru dæmi um það. Án eignarréttar er hins vegar hætt við ofnýtingu því enginn hefur hag af því að vernda stofninn.

Í Suðurríkjum Bandaríkjanna er vart hægt að hugsa sér krókódílaskoðunarferð um fenjasvæði án þess að gæða sér á krókódílasteik að ferð lokinni. Fátt bendir til þess á Spáni að ferðamenn hafi lagt á flótta þótt nautaat sé stundað og nautakjöt lagt sér til munns. Safaríferðir um Afríku væru ekki svipur hjá sjón ef ekki væri hægt að fá framandi rétti úr dýraríkinu að degi loknum.

Það þarf því ekki að koma á óvart að það hafi slegið í gegn meðal þeirra ferðamanna sem fara í hvalaskoðunarferðir frá Reykjavík að fá sér hvalasteik að því loknu. Það er nefnilega ekki þannig, eins og grænfriðungar og aðrir umhverfisverndarmenn halda fram, að fólki þyki óeðlilegt að gæði náttúrunnar séu nýtt af skynsemi um leið og menn njóta hennar.