Fimmtudagur 14. september 2006

257. tbl. 10. árg.
Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar…
– Árbók Ferðafélags Íslands 1987, um Kringilsárrana.

H öfundi árbókar Ferðafélags Íslands árið 1987 fannst að ekki væri margt að sjá fyrir ferðamenn í Kringilsárrana. Og það sem væri að sjá væri nær að sjá annars staðar. Eða svo orð hans um Kringilsárrana séu endurtekin: „Þangað er fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn“. Þetta er töluvert önnur lýsing en dynur nú á landsmönnum á hverjum degi, þar sem ýmist grátklökkt eða ævareitt fólk upplýsir landa sína um það að Kringilsárrani sé algjörlega einstæður, ein mesta náttúrufegurð sem hægt er að ímynda sér og hrein bilun ef hluti hans fer einhvern tíma undir vatn. Þeir sem ekki hafa komið í Ranann munu bráðum fara að halda að þar sveimi hvítir hrafnar yfir síðustu geirfuglshjónunum sem þar kjagi um með óuppskorið eintak af Fjölni sem Tómas vitjaði ekki.

Og svo kemur bara einhver náungi og heldur því blákalt fram að í Kringilsárrana sé ekkert að sjá.

Hver er eiginlega þessi maður? Það er þá væntanlega eitthvert leiguþý Landsvirkjunar, einhver verkfræðingsómyndin sem vill sökkva öllu nema Valgerði. Það verður að draga þennan mann fram og helst senda hann í útsýnisflug með Ómari svo hann skilji að verðmæti lands eru ekki mæld í krónum og aurum.

Höfundur árbókarinnar, þessi sem árið 1987 taldi að á Kringilsárrana væri ekkert að sjá, hann heitir Hjörleifur Guttormsson.

Og eins og Ólafur Teitur Guðnason benti á í síðasta fjölmiðlapistli, þá gera fjölmiðlar ekkert með þessi orð Hjörleifs. Fréttablaðið sagði frá þeim í smælkisdálki og enginn fjölmiðill hefur tekið þau upp. En þeir geta flutt og endurflutt látlausan söng um „hinn sérstæða Kringilsárrana“ sem „geymir einstakar og einstæðar náttúruminjar“ eins og Steingrímur J. Sigfússon sagði á Alþingi, þegar Kringilsárrani varð skyndilega dýrmætasti blettur landsins, og náttúruminjarnar á Kringilsárrana „einstakar á jarðarkringlunni“ eins og annar þingmaður vinstrigrænna sagði á Alþingi. Ólafur Teitur spyr í pistli sínum hvort fjölmiðlar yrðu jafn áhugalausir ef málinu yrði snúið við. Ef í ljós kæmi að Valgerður Sverrisdóttir hefði, áður en Kringilsárrani fór að skipta máli í pólitísku stríði, lýst svæðinu sem miklu djásni. Ætli ekki hefði verið velt sér dálítið upp úr því, ætli það hefði ekki þótt segja dálitla sögu um trúverðugleika og heilindi þegar hún nú telur að leggja megi hluta ranans undir vatn. En þegar fyrir liggur, og það í sjálfri árbók Ferðafélags Íslands, það álit Hjörleifs Guttormssonar að fátt sé að sjá á Kringilsárrana, þá þegja allir fjölmiðlamenn vandlega. Sem auðvitað er skiljanlegt að því leyti að hætt er við að allt púður yrði úr málinu ef fólk fengi að vita að meira að segja Hjörleifur Guttormsson sá ekkert við Kringilsárrana áður en hægt var að fá pólitískan ávinning af því gera hann að gersemi sem aldrei aldrei mætti fórna.

Þetta vekur enn athygli á tvennu. Í fyrsta lagi því ástandi að enginn blettur getur ratað inn í kort Landsvirkjunar án þess að verða um leið einn merkilegasti, sérstæðasti, dulmagnaðasti, yndislegasti, ólýsanlegasti staður á landinu – svo notuð séu orð nokkurra þeirra sem skrifað hafa um Kringilsárrana eftir að hann komst í fréttir. „Ég hef aldrei komið á stað sem er svo þrunginn framandi lífi“ skrifaði útvarpsmaðurinn Hjálmar Sveinsson um Kringilsárrana og er fjarri því að vera sá orðstærsti undanfarnar vikur.

Hitt atriðið sem þetta minnir á er nauðsyn fjölmiðaumfjöllunar Ólafs Teits Guðnasonar. Það er með hreinum ólíkindum að enginn segi frá því hvert var álit náttúruverndarmannsins Hjörleifs Guttormssonar, manns sem þekkir Austurland betur en flestir, á Kringilsárrana áður en Kringilsárrani varð fremur óvænt að einstökum dýrgrip.

Og að lokum: Þangað er fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn.