A lþingismaður Vinstri grænna og BSRB, Ögmundur Jónasson, er háheilagur maður. Hann þolir ekki óheilindi eða leynimakk og þegir ekki þegar hann verður var við einhvers konar ósvinnu af því tagi í stjórnmálum hér á landi. Þess vegna gerðist það á mánudag að hann neyddist til að hverfa skyndilega af fundi iðnaðarnefndar Alþingis með hurðaskellum í fjölmiðlum. Þetta gerði hann ekki vegna þess að hann vildi vekja athygli á sér opinberlega, nei, það var heilög réttlætiskennd Ögmundar sem rak hann út af fundi nefndarinnar. Sá glæpur hafði nefnilega átt sér stað að inn á nefndarfundinn rötuðu gögn frá Landsvirkjun sem fyrirtækið taldi innihalda viðskiptaleyndarmál og voru því merkt trúnaðarmál. Þetta gat ekki gengið og um ósvífnina sagði heilagur Ögmundur í samtali við Ríkisútvarpið:
„Ég er búinn að fá gjörsamlega upp í háls af vinnubrögðum Landsvirkjunar og stjórnvalda varðandi Kárahnjúkavirkjun. Þessi vinnubrögð einkennast af yfirgangi og tilraunum til að múlbinda alla þá sem vilja taka þátt í opinni og lýðræðislegri umræðu um þessi mál.“
Já, ljótt er það. Leynimakk um arðsemi hjá opinberu fyrirtæki. Algerlega óþolandi auðvitað. Og einmitt þess vegna er Ögmundur Jónasson nú samkvæmur sjálfum sér og situr sveittur við að semja harðorða fréttatilkynningu um annað leynimakk um arðsemi hjá öðru opinberu fyrirtæki. Það leynimakk var meira að segja hálfu alvarlegra, því að þar var enginn látinn vita af því að tölum væri haldið frá „opinni og lýðræðislegri umræðu“. Og það sem meira er, þetta gerðist rétt fyrir kosningar og var einmitt í þeim tilgangi gert að halda upplýsingum frá almenningi fyrir kosningar, eins og fram hefur komið hjá leynimakkaranum sjálfum.
Það sem heilögum Ögmundi finnst svo allra verst í þessu öllu saman er að leynimakkarinn, Björk Vilhelmsdóttir, var kjörin sem fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn, þar sem hún stundaði leynimakkið. Þess vegna telur hann glæpinn enn alvarlegri en ella. Allt þetta og miklu fleira til kemur fram í fréttatilkynningunni sem Ögmundur er með í smíðum. Vefþjóðviljinn er þess fullviss að gleymi Ögmundur að senda tilkynninguna frá sér, þá muni Ríkisútvarpið standa vörð um opna og lýðræðislega umræðu með því að inna formann BSRB eftir því hvað þingmanni Vinstri grænna þykir um heilaga reiði Ögmundar Jónassonar í garð Bjarkar Vilhelmsdóttur.