Þriðjudagur 12. september 2006

255. tbl. 10. árg.
Merkileg heimildarmynd og þörf hugvekja var sýnd á fyrstu dögum kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík.
Myndin er kennslustund, þar sem kennarinn Al Gore, sýnir á skipulegan og sannfærandi hátt hvaða hætta steðjar að jarðarbúum ef ekki verður brugðist við og losun gróðurhúsalofttegunda takmörkuð. Valið stendur á milli þess að gera ekkert og sjá fram á lok siðmenningar eða tryggja börnum og barnabörnum lífvænlega framtíð með aðgerðum.
-Friðrik Páll Jónsson umsjónarmaður Spegilsins í þætti sínum 5. september 2006.

K

Umhverfisverndarsinni reyndi að sannfæra samningamann Bandaríkjanna í Kyoto viðræðunum 2001 með því að bera í hann veitingar.

vikmynd Al Gore um gróðurhúsaáhrifin var til umfjöllunar í Spegli Ríkissjónvarpsins á þriðjudaginn. Þar fengu hlustendur vænan skammt af þeirri hlutdrægni og óvönduðu vinnubrögðum sem einkenna Spegilinn. Spegillinn hefur á síðustu árum orðið einskonar grafskrift 3. greinar laga um Ríkisútvarpið sem kveður á um það skuli „gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“.

Friðrik Páll Jónsson, umsjónarmaður Spegilsins og stúdent hjá Al Gore, flutti langa lofrullu um myndina og á stundum var ekki ljóst hvor talaði, Friðrik Páll eða Gore eða kennarinn í gegnum sannfærðan nemanda sinn. Allt var í belg og biðu enda umsjónarmaðurinn og nemandinn greinilega í mikilli geðshræringu yfir því hvort menn muni ná að „tryggja börnum og barnabörnum lífvænlega framtíð með aðgerðum“.

Friðrik Páll hafði eftir Gore að aðeins tvö ríki heims hafi ekki gerst aðilar að Kyoto samningnum um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, Bandaríkin og Ástralía. En hvað er annars útlit fyrir að mörg ríki standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum? Meistari Gore og lærisveinn hans á Speglinum gátu ekki frætt hlustendur Ríkisútvarpsins um það enda er leitun að slíkum ríkjum. Það er líka spurning hvort það kallist að vera aðili að slíkum samningi þegar menn taka engar skuldbindingar á sig eins og nokkur fjölmennustu og stærstu ríki heims gera. Hvorki Kína, Indland né Brasilía taka á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto og svo er um margar aðrar þjóðir. Staða Bandaríkjanna og Ástralíu er því ekki frábrugðin flestum öðrum ríkjum sem annað hvort þurfa ekki að taka á sig neinar skuldbindingar eða munu aldrei uppfylla skuldbindingar sínar. Bandaríkin og Ástralía eru bara ærleg með þá stöðu sína.

En aðalatriðinu var komið til skila við hlustendur Ríkisútvarpsins; Bandaríkin eru vond og við sjáum víst fram á „lok siðmenningarinnar“ ef Gore og spegilmynd hans verður ekki veitt næg athygli.