Mánudagur 11. september 2006

254. tbl. 10. árg.

L ítum á tvö viðtöl sem birtust í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Í enn einni umhverfisumfjöllun blaðsins var meðal annars rætt við Lindu Björgu Árnadóttur, kennara við Listaskólann. Hún segir að svonefnd hippakynslóð hafi haft mikil áhrif á íslenska menningu og þá einnig á tísku:

Fram að hippatímanum vildu allir vera „fínir“. Nú er það ekki lengur sjálfgefið. Það er auðvelt að rekja þennan stíl. Það er ákveðinn næfismi í gangi. Ég held að unga fólkið viti ekki endilega svo mikið um þessa hluti. Það kaupir hugmyndirnar oft og tíðum gagnrýnislaust og hrífst bara með. Það er [til dæmis] alltaf flott að mótmæla. Fólk er [með öðrum orðum] fljótt að tileinka sér nýjungarnar en það vantar dýptina.

Þetta er rétt ábending um tíðarandann. Nú má úr öllum hornum heyra í stóryrtu fólki sem greinilega finnst meira en lítið „flott að mótmæla“; því finnst að ekki megi virkja meira en þarf til að svala núverandi orkuþörf höfuðborgarbúa, því finnst að forseti Bandaríkjanna sé vangefinn en allir í kringum hann illmenni, það veit miklar sakir upp á Vesturlönd og þá einkum þau sem standa með Bandaríkjunum, það er mjög hlynnt lýðræði en þá einkum því lýðræði sem felst í því að þeir sem lítils fylgis njóta taki sér vald til þess að hindra þær framkvæmdir sem lýðræðislega kjörið þing hefur heimilað, það trúir strax hverskyns samsæriskenningum sem það heyrir um stjórnvöld hvar sem er í heiminum, kristið fólk finnst því skiptast í ofstækismenn og einfeldninga, það er mjög hlynnt friði og andvígt öllu sem gert er til að berjast gegn hryðjuverkamönnum, því er kunnugt um að allt sem miður fer í Miðausturlöndum er Ísraelsmönnum og Bandaríkjunum að kenna, og svo framvegis. Og ætli það sé ekki óhætt að ímynda sér að sumt þessa indæla fólks hafi, eins og Linda Björg Árnadóttir orðar það, keypt hugmynd gagnrýnislaust og hrifist bara með.

Annað viðtal Morgunblaðsins var við Steindór Andersen, formann Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Steindór er ekki aðeins lipur kvæðamaður heldur hefur marga aðra fjöru sopið. Hann var um áratugaskeið á sjónum, síðast á eigin trillu. Um það segir hann:

Það vannst inn einhver kvóti. Við höfðum barist gegn því í sjö ár að kvóti yrði settur á trillurnar, vildum hafa kerfið opið og að frekar yrði fækkað dögum sem mætti veiða. Engu að síður var kvótakerfinu þröngvað upp á okkur og sé ég ekki betur en flestir hafi verið ánægðir með það þegar upp var staðið. Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra gerði vel, því kvótinn stórjókst á trillunum ef miðað er við aflareynslu. Og það þarf enginn að kvarta undan því. Þetta er ekki eins og þegar Sverrir [Hermannsson] rak hundrað manns úr Landsbankanum, sem fóru bara heim til sín og máttu éta það sem úti frýs. Þarna var þó afkoman tryggð þegar menn hættu.

Einmitt það. Það var nú ekki svo lítið sem sjávarútvegsráðherrar síðustu ára hafa verið gagnrýndir fyrir að koma smábátum inn í aflamarkskerfið. Árum saman sungið um að verið væri „að þurrka trillukarlinn út“. En svo heldur færri orð um það þegar flestir reynast ánægðir þegar upp er staðið.

Í dag eru fimm ár liðin frá því Gordon Strachan lét af störfum sem knattspyrnustjóri Coventry City. Félagið hafði ekki verið á sigurbraut um nokkra hríð og því reynt að skipta um mann í brúnni. En síðan þá hefur lítið gengið hjá þeim ljósbláu og minnir það á mannabreytingar eru ekki alltaf það töframeðal sem sumir halda. Væntanlega munu breskir vinstrimenn komast að því þegar þeir hafa haft það af að svæla Tony Blair út fyrir Gordon Brown, en valdakrafa Browns virðist helst byggð á því að hann hafi beðið lengi. Forysta Browns fyrir Verkamannaflokknum, ef af verður, verður fagnaðarefni, því hún mun auka líkurnar á því að Íhaldsflokkurinn komist að stjórnartaumunum að nýju. Ef David Cameron verður ekki búinn að breyta honum í dúkkuhús áður.