Helgarsprokið 10. september 2006

253. tbl. 10. árg.

Á morgun hefst alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarstrauma og Norður-Atlantshafið. Á ráðstefnunni, sem er haldin á vegum nokkurra ráðuneyta og norrænu ráðherranefndarinnar, verður meðal annars rætt um hvaða þekking er fyrir hendi á þessu sviði og hver séu brýnustu rannsóknarverkefnin í náinni framtíð. Meðal þess sem ástæða væri til að ræða á slíkri ráðstefnu, en verður líklega ekki rætt, eru niðurstöður rannsókna Johns Lymans hjá National Oceanic and Atmospheric Administration í Bandaríkjunum. Þessar niðurstöður verða að sögn Patricks J. Michaels, rannsóknaprófessors í umhverfisfræðum við Háskólann í Virginíu og fyrrverandi forseta American Association of State Climatologists, birtar á næstu vikum í tímaritinu Geophysical Resarch Letters. Michaels fjallar um niðurstöðurnar í grein sem birt er á vef Cato-stofnunarinnar.

„„Eins og við höfum lært af kólnun djúpsjávarins sem hófst árið 2003 og enginn gerði ráð fyrir, þá vitum við mun minna um loftslags-breytingar en við höldum.““

Michaels segir að í loftslagslíkönum sé gert ráð fyrir að sjórinn sé risastórt baðkar sem taki til sín og geymi í sér langtíma loftslagsbreytingar. Afleiðingin sé sú að líkönin geri ráð fyrir að með auknu koldíoxíði í andrúmsloftinu hitni sjórinn stöðugt og þegar það ferli hefjist sé engin leið að stöðva það. En þó að þetta sé það sem almennt sé gert ráð fyrir, þá sé það eins með þetta og svo margt annað sem menn trúi, að svona sé þetta ekki í náttúrunni.

Rannsóknir Lymans sýna, að sögn Michaels, að þegar litið sé á hnöttinn í heild þá hafi efstu 2.500 fetin í hafinu, sem samsvara um 800 metrum, tapað miklum varma á árunum 2003 til 2005. Varmatapið nemi um 20% af öllum þeim varma sem sjórinn hafi safnað í sig síðustu hálfa öldina.

Tölur Lymans hafa að sögn Michaels komið loftslagsfræðingum á óvart og líkön þeirra hafi ekki spáð fyrir um slíkar niðurstöður. Og þar að auki hafi yfirborðshiti sjávar ekki  breyst með sama hætti og hiti á meira dýpi, þó að þar hafi hitinn einnig lækkað nokkuð. Þá hafi yfirborð sjávar ekki lækkað í samræmi við lækkandi hita.

Af þessari ástæðu hafi vísindamenn velt því fyrir sér að meiri ís hljóti að vera að bráðna út í sjóinn en þeir hafi almennt gert ráð fyrir, en enginn hafi getað fundið þann ís þrátt fyrir að ekkert hafi vantað upp á að menn hafi leitað.

Önnur kenning sé til, sem þó hafi fengið minni athygli, en hún snúist um uppsöfnun koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Í um 150 ár hafi menn vitað að ef koldíoxíð aukist á jöfnum hraða, þá muni yfirborðshiti hækka, en á minnkandi hraða. Með öðrum orðum þurfi koldíoxíð í andrúmsloftinu að aukast með sífellt auknum hraða til að hitaaukning haldist jöfn, eins og hafi verið frá 1975. Þar sem hiti sjávar breytist hægt taki breytingar hans af völdum aukins koldíoxíðs í andrúmsloftinu marga áratugi að koma fram.

Michaels segir að frá því að koldíoxíð hafi fyrst verið mælt með beinum hætti í andrúmsloftinu árið 1957 og fram til ársins 1975 hafi það greinilega aukist með veldisvexti. Og þegar hiti sjávar fór að hækka hafi hann gert það á jöfnum hraða. Fyrir um þrjátíu árum hafi dálítið sérstakt átt sér stað, því að frá árinu 1975 hafi verið ómögulegt að segja til um hvort koldíoxíð í andrúmsloftinu hafi aukist á jöfnum hraða eða með veldisvexti. Þar sem talið sé að það taki um þrjá til sex áratugi fyrir breytingar í koldíoxíði í andrúmsloftinu að koma fram í sjávarhitanum þurfi sú þróun sjávarhitans sem nú hafi verið mæld ekki að koma á óvart.

„En þetta er bara enn ein kenningin um loftslagsbreytingar sem tíminn mun skera úr um,“ segir Michaels, og bætir við: „Eins og við höfum lært af kólnun djúpsjávarins sem hófst árið 2003 og enginn gerði ráð fyrir, þá vitum við mun minna um loftslagsbreytingar en við höldum.“

Fyrrnefnd ráðstefna verður vonandi til þess að menn komist nær hinu sanna um loftslagsbreytingar, mögulegar ástæður þeirra og afleiðingar. Markmiðið sem fram kemur í yfirskrift ráðstefnunnar gefur vissulega von um að svo sé, það er að segja að á ráðstefnunni eigi að leggja mat á þá þekkingu sem fyrir hendi er og hver séu brýnustu rannsóknaverkefnin framundan. Mikilvægt er að menn ofmetnist ekki og telji sér ekki trú um að þeir viti allt um orsök og afleiðingar allra hluta í náttúrunni, enda væri þá stutt í að vísindin breyttust í einhvers konar trúarbrögð og menn legðu meiri áherslu á að boða „sannleikann“ en að reyna að nálgast hann.