Laugardagur 9. september 2006

252. tbl. 10. árg.

E ftir miklar umræður meðal forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi um það hvort stjórnarandstaðan eigi að eiga einhvers konar samvinnu á þeim kosningavetri sem framundan er liggur niðurstaðan fyrir. Í Morgunblaðinu í gær var eftirfarandi frásögn af samstöðunni:

„Við vorum öll sammála um það að við værum ekki að stefna í kosningabandalag,“ segir Ingibjörg Sólrún [Gísladóttir]. „Við ætlum hins vegar að stefna að því að stilla saman strengina og sjá hvernig það svo þróast á þinginu. Það er ekkert meira í því en það. Við ætlum að reyna að vera meira samstiga á þinginu.“

Þennan merka málefnasamning vinstri flokkanna þriggja tókst að berja saman í kaffisamsæti á heimili formanns Samfylkingarinnar og enginn þarf að efast um að þeir sem ná svo afgerandi samkomulagi nú munu ekki eiga í erfiðleikum með að mynda starfhæfa og langlífa ríkisstjórn eftir kosningar á næsta ári.

F réttastofa Ríkissjónvarpsins flutti í gær langa frétt af nýjum nektarstöðum í miðborg Reykjavíkur og vinnuhópi á vegum mannréttindanefndar borgarinnar. Marsibil Sæmundardóttir er formaður vinnuhópsins og segir hann meðal annars eiga að kanna hvernig koma megi í veg fyrir starfsemi staðanna. Ekkert kom fram í fréttinni um að á stöðunum færi nokkuð fram annað en það sem allir viðstaddir væru sáttir við að taka þátt í.

Það er nokkuð sérstakt að „mannréttindanefnd“ Reykjavíkur telji það í verkahring sínum að koma í veg fyrir starfsemi þar sem ekki verður séð að nokkur mannréttindi séu brotin. Hvað truflar það Marsibil þótt fullorðið fólk komi saman af fúsum og frjálsum vilja og eigi viðskipti sín á milli? Hvað er að því að einhver kaupi þjónustu sem annar vill gjarnan veita gegn greiðslu? Mannréttindi hvers eru brotin með þeim gjörningi?

Vitaskuld eru mannréttindi ekki í nokkurri hættu þótt sumir dansi erótíska dansa fyrir aðra gegn greiðslu. Breytir þá engu hvort staðirnir sem þjónustuna veita eru kampavínsstaðir í miðborginni og kúnnarnir karlar, eða að staðirnir eru dansstaðir í Ármúlanum og kúnnarnir konur. Mannréttindi koma erótískum dansi ekki við, nema þá að því leyti að það eru mannréttindi fullorðins fólks að vera frjálst að því að dansa slíkan dans eða horfa á slíkan dans ef einhver vill dansa.

Eina mögulega mannréttindabrotið væri ef einhverjum tækist að koma í veg fyrir að annar gæti nýtt sér þessi réttindi sín. Væntanlega verður fljótlega settur upp vinnuhópur á vegum mannréttindanefndar borgarinnar til að kanna hvort verið er að reyna að brjóta mannréttindi á dönsurum og áhorfendum þeirra.