Föstudagur 8. september 2006

251. tbl. 10. árg.
„[Ég vil] ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins.“
– Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar á Rás 2 í gær.

B jörk Vilhelmsdóttir var einmitt það sem Samfylkingin þurfti í baráttunni við VG um forystuhlutverkið á vinstri vængnum. Það er engu líkara en að hún hafi farið yfir landamæri flokkanna íklædd sprengjubelti frá tískuhúsi Arafata og sprengt strætó í loft upp. Nú er svo komið á daginn að Björk leyndi upplýsingum um að fjárhagsstaða Strætó bs. væri í rúst fram yfir kosningar. Það er sjálfsagt að geta þess  að fjárhagsstaða Strætó bs. hefur aldrei verið góð og verður það ekki á meðan skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu niðurgreiða starfsemi þess. En á síðasta ári var tekið upp nýtt leiðakerfi og á borgarstjórnarfundi 6. september sagði Björk þáverandi stjórnarformaður Strætós bs. „hið rétta er að nýja leiðakerfið kostar ekki meira en gamla leiðakerfið.“

Hafi hún trúað þessu í september á síðasta ári mátti henni þó vera það ljóst löngu fyrir borgarstjórnarkosningar í vor að nýja leiðakerfið reyndist mun dýrara og staða byggðasamlagsins var orðin verulega slæm. En hún vildi ekki eyðileggja þá jákvæðu umfjöllun sem  hún hafði heyrt einhvers staðar um hið nýja leiðakerfi með einhverjum leiðinda upplýsingum um hrikalega fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Hvorki borgarráð né borgarstjórn Reykjavíkur voru upplýst um málið. Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja í yfirlýsingu að Strætó bs. hafi tapað 1 milljón króna á dag umfram áætlanir stjórnar.

Það er vafalítið einn merkilegasti minnisvarðinn um afrekin sem R-listinn vann í 12 ára valdatíð sinni að farþegum strætó fækkaði um 26%, kostnaður snarhækkaði, einkabílum fjölgaði mikið og bensínstöðvum í borginni fjölgaði um 50% þrátt fyrir að borgin hafi ekkert stækkað. Það var enda markmið R-listans frá upphafi að auka vægi strætós á kostnað einkabílsins.