Á dögunum var haldinn málfundur um réttarstöðu mótmælenda, eins og það var kallað. Frummælendur voru tveir, Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Ragnar Aðalsteinsson lögmaður, en sá síðarnefndi hefur eins og kunnugt er ósjaldan verið þeirrar skoðunar að „mótmælendur“ séu í miklum rétti að fara sínu fram, en lögreglan brjóti ýmis réttindi manna þegar hún reynir að hindra þá í tiltækjum sínum. Vefþjóðviljinn hefur lengi mótmælt þeim sið fréttamanna að tala um allskyns skemmdarvarga sem „mótmælendur“ og látið í ljós þá skoðun að skoðanir fólksins – sem það hefur fullan rétt á að hafa – veiti því engan sérstakan rétt til aðgerða sinna eða breyti því ekki að skemmdarverk eru skemmdarverk. Sérstök ánægja er því að Stefán Eiríksson lögreglustjóri virðist hafa talað skýrt um þetta atriði á fundinum, en í Morgunblaðinu er sagt að hann hafi „varað við bollaleggingum um að ólöglega háttsemi yrði að skoða út frá tilgangi hennar“. Samkvæmt blaðinu sagði Stefán um þetta atriði: „Það er að sjálfsögðu ekki boðlegt við skipulagningu löggæslu, eða mat á því hvort stöðva eigi ólögmæta háttsemi, að horfa til þess í hvaða tilgangi tiltekið lögbrot er framið og miða ákvörðun um að stöðva hið ólögmæta ástand við það. Lögreglan getur ekki og má ekki bregðast öðruvísi við rúðubroti, skemmdarverki, frelsissviptingu eða annarri ólögmætri háttsemi eftir því hvort tilgangurinn er að mótmæla framkvæmdum við Kárahnjúka, ákvörðunum Alþjóðabankans eða einhver önnur ótilgreind skemmdarfýsn. Ef opnað er fyrir slík sveigjanleg viðbrögð eftir því hver tilgangurinn að baki lögbroti er, þá fyrst erum við farin að nálgast atriði sem vega að rótum þess lýðræðisskipulags sem við viljum og eigum að varðveita.“
Það er heldur meira vit í þessum skýru og jarðbundnu orðum en hinu samfellda hjali um rétt manna til þess að „tjá skoðanir sínar“ og „mótmæla“, með því hindra löglegar framkvæmdir annars fólks. Rétturinn til að tjá sig veitir ekki rétt til þess að knýja skoðun sína fram og auðvitað rétt hjá lögreglustjóranum að lögreglan getur ekki staðið í að meta það hvaða ástæðu hver og einn brotamaður hefur fyrir brotum sínum. Þegar mótmælendur taka upp á því að hindra lögmæta starfsemi eða brjóta lög með öðrum hætti, þá eru þeir skemmdarvargar en ekki mótmælendur. Það er með ólíkindum að fréttamenn þurfi sumir hverjir sífellt að gefa ranga mynd af heiminum með því að kalla skemmdarvarga þessu ranga heiti. Það er auk þess leiðinlegt, að menn grafi undan tjáningarfrelsinu með því að láta eins og í því felist skemmdarverkastarfsemi og ýmis önnur hefðbundin lögbrot.
F leira var í Morgunblaðinu í gær. Lítil erlend frétt, eða öllu heldur myndatexti, sagði svolitla sögu um tíðarandann. Mynd sýndi skeggjaða og heldur sérkennilega menn rífa auglýsingamynd af heimskunnri söngkonu. Undir myndinni var skýringartextinn: „„Merkisberar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar“, sem kalla sig svo, hafa á síðustu dögum mótmælt harðlega væntanlegum tónleikum poppdrottningarinnar Madonnu í Moskvu næsta mánudag. Hér rífa þeir í sundur mynd af henni á Púshkínskajatorgi en þeir saka hana um að óvirða trúað fólk.“
Raunar er það svo, að ef menn leyfa sér að draga ályktanir af búningi hinna reiðu manna, þá er sennilega ástæða til þess hjá blaðinu að gera fyrirvara um merkisbera-titil þeirra. En þrátt fyrir það, þá er svolítið dæmigert fyrir þann tíðaranda sem dýrkar poppmenningu og frægðarfólk, að það eru „„merkisberar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar“ sem svo kalla sig“, sem fá athugasemd um að titlar þeirra eigi sér kannski enga sérstaka stoð en ekki „poppdrottningin Madonna“.