Þ að er með nokkrum ólíkindum að lesa grein Ágústs Ágústs Ágústssonar þingmanns sem í Morgunblaðinu í gær notar tækifærið meðan enn er lag að titla sig varaformann Samfylkingarinnar. Greinin fjallar um stjórn efnahagsmála og í henni er lagt út af nýlegri þjóðhagsspá greiningardeildar Glitnis banka. Í greininni segir orðrétt: „Í nýrri þjóðhagsspá Glitnis segir að almenningur muni borga brúsann fyrir mistök ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.“ Ágúst treystir því líklega að enginn nenni að lesa umrædda þjóðhagsspá og líklega er það nokkuð nærri lagi, enda langsótt að telja skýrsluna skemmtilestur. Þó er það nú þannig, eins og þeir vita sem hafa lagt á sig að þrælast í gegnum plaggið, að þar er hvergi fullyrt neitt þessu líkt. Miklu nær væri að segja að í þjóðhagsspánni sé talað um góðar hagvaxtarhorfur eftir skammvinnan samdrátt með mjúkri lendingu og hratt minnkandi verðbólgu. Grein Ágústs er öll eftir þessu svo halda mætti að þjóðhagsspáin sé full af svartnætti og gagnrýni á stjórnvöld. Staðreyndin er hins vegar sú að rit greiningardeildarinnar er fremur jákvætt þótt þar megi vitaskuld einnig finna varnaðarorð og jafnvel aðfinnslur við ríki og sveitarfélög ef grannt er gáð.
Aðfinnslurnar í þjóðhagsspánni snúa ekki að atriðum á borð við þau sem ætla mætti af grein Ágústs, en hann setur til að mynda fram eftirfarandi fullyrðingu: „Starfsskilyrði fyrirtækja hafa versnað í valdatíð ríkisstjórnarinnar.“ Þetta er vægast sagt sérkennilegt, ekki síst þegar á það er litið að í skýrslunni sem Ágúst þykist styðja sig við er sérstaklega fjallað um sterka stöðu fyrirtækjanna og því meira að segja slegið upp í millifyrirsögn þannig að jafnvel varaformaður Samfylkingarinnar hefði átt að rekast rekast á þá umfjöllun.
Aðfinnslurnar og varnaðarorðin í þjóðhagsspánni snúa í meginatriðum að því sama og Vefþjóðviljinn hefur ítrekað bent á, eða of mikil opinber útgjöld. Þeim aðfinnslum er bæði beint að ríki og sveitarfélögum, ólíkt því sem Ágúst gerir. Gagnrýni hans beinist eingöngu að ríkinu, sem þó hefur verið skárra en sveitarfélögin að þessu leyti. Ágúst klykkir svo út með því að segjast „sannfærður um að Samfylkingin mun gera betur. Samfylkingin mun stjórna efnahagsmálunum af festu og ábyrgð.“ Þó er helsta framlag hans til stjórnar efnahagsmála barátta fyrir auknum ríkisútgjöldum og gagnrýni á ríkið fyrir að halda menntakerfinu í „fjársvelti“, þegar öllum má ljóst vera að útgjöld ríkisins til menntamála hafa aukist hratt á síðustu árum og eru með þeim allra mestu í heimi. Mennta- og heilbrigðismál hafa reyndar verið nánast undanþegin yfirlýstri viðleitni ríkisins til að hemja vöxt útgjalda.
Það getur ekki verið sæmandi, jafnvel þingmanni og varaformanni flokks á borð við Samfylkinguna, að rangtúlka álit þeirra sem fjalla um efnahagsmál. Sérstaklega þegar vitað er að álitsgjafinn á erfitt með að standa í því að munnhöggvast við alþingismenn.