R
![]() |
Menn þurfa ekki að leita suður um höf eftir skattaskjólum. Nóg er af þeim á Íslandi. |
íkisskattstjóri og fjármálaráðuneytið hafa á undanförnum árum lýst yfir áhyggjum sínum af svonefndum „skattaskjólum“ en það eru ríki, gjarnan litlar veðursælar eyjar, sem innheimta litla sem enga skatta af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Ríkisskattstjóri, gjarnan með uppslætti Morgunblaðsins, hefur margsinnis kvartað undan því að Íslendingar geti átt fé og aðrar eignir í þessum ríkjum án þess að greiða skatta af þeim hér landi. Fjármálaráðuneytið á í alþjóðlegu samstarfi innan OECD um að brjóta þessar skattaparadísir á bak aftur.
Þennan svonefnda vanda mætti auðvitað leysa með því að lækka skatta svo verulega hér að engum dytti í hug að geyma verðmæti annars staðar. Væntanlega mundi duga að lækka tekjuskatt einstaklinga í flatan 15% skatt til þess að menn hættu að hafa fyrir flutningi eigna sinna til annarra landa. Þá þyrfti þó líklega einnig að leggja af þann sið að birta upplýsingar um persónuleg fjármál einstaklinga í skatt- og álagningarskrám og skattstjórar þyrftu að stilla sig um að reiða „hákarlalistann“ fram handa fjölmiðlum. Birtingin er sjálfsagt ætluð sem aðhald en veldur því auðvitað að einhverjir snúa sér einfaldlega annað með fjármuni sína.
Já þeir gnísta tönnum yfir þessum skattaskjólum í fjármálaráðuneytinu og hjá ríkisskattstjóra. Þeir hafa hins vegar lítil áhrif á lagasetningu á Bermuda, Belize eða Panama. Skattgreiðendur á Íslandi munu því enn um stund njóta þess aðhalds sem þessi litlu ríki veita vestrænum stjórnmála- og skattheimtumönnum.
En hvað með nærtækari og raunæfari verkefni fyrir íslenska fjármálaráðuneytið og ríkisskattstjórann?
- Hvað með algert skattaskjól íslenskra embættismanna, fulltrúa og annarra starfsmanna sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum? Þeir eru flestir í skjóli fyrir tekjuskatti sem aðrir Íslendingar greiða.
- Hvað með skjól sjómanna fyrir tekjuskatti sem nefndur er sjómannaafsláttur?
- Hvað með sérstakt skjól stjórnmálaflokka og ýmissa annarra samtaka, sem fjármálaráðherra ákveður með reglugerð hver eru, sem deila skattfríðindum með fyrirtækjunum sem styrkja þau í formi sérstaks frádráttar frá tekjuskattsstofni? Og í framhaldi má spyrja hvers vegna fyrirtækjaeigendur sem greiða 26% tekjuskatt (10% af arðgreiðslum og 18% tekjuskatt) af greiðslum úr rekstri sínum þurfi slíkt skattaskjól til að styrkja ákveðna starfsemi en einstaklingar sem greiða 37% tekjuskatt ekki?
- Hvað með tollaskjólið sem innlendur landbúnaður nýtur gegn erlendri samkeppni?
- Hvað með tollaskjólið sem margar íslenskar og evrópskar vörur njóta gagnvart annarri samkeppni eins og frá Bandaríkjunum?
- Hvað með skattaskjól barna-, vaxta- og húsaleigubóta sem eru skattfrjáls ólíkt ýmsum öðrum bótum?
- Hvað með skattfrestun iðgjalda í lífeyrissjóði sem annar sparnaður nýtur ekki?
Nei þetta eru kannski ekki spennandi verkefni fyrir þá sem hugsa mest til suðrænna eyja og eygja kannski möguleika á því að komast í öruggt skjól fyrir tekjuskatti hjá yfirþjóðlegri eftirlitsstofnun með skattaskjólum.