Þriðjudagur 19. september 2006

262. tbl. 10. árg.

Í síðasta mánuði sagði Vefþjóðviljinn frá því að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mundi líklega mæla með því að skordýraeitrið DDT yrði leyft til notkunar að nýju en efninu var úthýst eftir að hin áhrifaríka bók umhverfisverndarsinnans Rachel Carson, Silent Spring, lýsti efninu sem skaðræði. Vefþjóðviljinn hefur einnig hvatt til þess að efnið yrði leyft að nýju frá því hann hóf útgáfu.

Nú berast þær ánægjulegu fréttir að WHO hafi einmitt gert það. Bann við notkun DDT hefur kostað mörg mannslíf því notkun þess er áhrifaríkasta vörnin gegn smitbera malaríu. DDT eyddi malaríu meðal iðnvæddra þjóða og efnið er enn ódýrasta og varanlegasta vörnin gegn moskítóflugunni sem ber sjúkdóminn með sér. Malaría kostar 1 til 2 milljónir manna lífið í Afríku á hverju ári og þar af er stór hluti börn undir 5 ára aldri.

Umhverfisverndarmenn sjást oft ekki fyrir í baráttu sinni. Þeir berjast af oddi og egg fyrir bættu umhverfi en gleyma því oft að stundum þarf líka að bæta heiminn.

Bannið við DDT er hryllilegur minnisvarði um hvað eindregin umhverfisverndarbarátta getur kostað þegar menn gleyma því að maðurinn er hluti af umhverfinu.