Þriðjudagur 22. ágúst 2006

234. tbl. 10. árg.

Nýr formaður Framsóknarflokksins fékk ágætis skilaboð frá forvera sínum. Í lokaræðu sinni minntist Halldór Ásgrímsson á það að þessi gríðarlega vernd sem íslenskur landbúnaður nýtur í dag, fái ekki staðist til langframa. Óneitanlega hefði Vefþjóðviljanum þótt það betra að hann hefði nú komið þessari skoðun sinni á framfæri aðeins fyrr, en betra er seint en aldrei. Það er engin ástæða fyrir því að Ísland berjist hetjulega við Noreg og Japan um heimsmetið í ríkisstuðningi og innflutningsvernd í landbúnaði. En þarna er ef til vill komin meinloka Framsóknar; að afnám ofurtolla og ofverndar muni útrýma bændastéttinni, eða að minnsta kosti gera hana farlama að eilífu. Það væri ákaflega viðeigandi og skemmtilegt ef Framsókn væri í forystu fyrir því að opna algerlega fyrir tollalausan innflutning og erlenda jafnt sem innlenda samkeppni í landbúnaðarmálum – þótt ekki væri nema til að stela glæpnum. Og ef menn reikna með því að varaformaðurinn, landbúnaðarráðherrann, myndi standa í vegi fyrir slíku, er spurning um að senda hann í smá kynningarferð til Nýja-Sjálands. Þá kæmist hann í kynni við þá tegund bænda sem er æskilegust hérlendis; sjálfstæðir, óniðurgreiddir af skattfé, fullfrjálsir að framleiðslu sinni, vinna í galopnu umhverfi þar sem innflutningur er bæði frjáls og tollalaus. Og samt blómstrar landbúnaðurinn þar.

Í þessu sambandi vekur það sérstaka athygli að stuðningsmenn óbreytts ástands vísa nú mjög til þess að bíða þurfi eftir niðurstöðum í andvana fæddum umræðum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aukna fríverslun með landbúnaðarvörur. Það er með öðrum orðum þannig að alþjóðlegt samstarf um fríverslun er farið að hamla fríverslun. Þetta beinir vonandi sjónum manna að því að það eru hagsmunir hvers ríkis fyrir sig að afnema viðskiptahindranir, óháð því hvað önnur ríki gera. Tollabandalög eins og Evrópusambandið koma hins vegar í veg fyrir að aðildarríki geti gripið til slíkra ráða.