Miðvikudagur 23. ágúst 2006

235. tbl. 10. árg.

Ú

Er ekki stórkostlega skaðlegt fyrir opinbera starfsmenn að slíkir karakterar fái að leika lausum hala á síðum Tinnabókanna?

tvarpsmenn gáfu hlustendum vindlinga í byrjun vikunnar til að kynna bíómynd og gáfu bíómiða. Aðeins reykingamönnum mun hafa boðist að fá miða, en bíómyndin heitir Þakka þér fyrir að reykja. Jakobína H. Árnadóttir verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá ríkisstofnuninni Lýðheilsustöð er heldur ósátt við athæfið og lætur hafa eftir sér við fjölmiðla að stofnunin muni bregðast hart við. Viðbrögð þessa ríkisstarfsmanns við athöfnum einstaklinga er því miður ekki einangrað tilvik því að þeir sem vilja hafa vit fyrir reykingamönnum hafa sótt mjög í sig veðrið á síðustu árum og hefur ítrekað tekist að traðka á réttindum þeirra sem reykja. Það er orðið svo að reykingamenn, og raunar allir þeir sem hafa meiri áhuga á frelsi einstaklingsins en ofstæki andstæðinga reykinga, hljóta að vera farnir að óttast í alvöru að ofsóknirnar endi með algeru reykingabanni. Það hlýtur í það minnsta að vera markmið þeirra sem ganga hvað lengst, enda geta þeir ekki einu sinni unnt reykingamönnum þess að koma saman á prívatsamkomum eða í einkaklúbbum til að reykja saman.

En þær eru fleiri furðufréttirnar af reykingaofstækinu. Nú hefur verið greint frá því að rétthafar teiknimyndanna af Tomma og Jenna hyggist vegna þrýstings ofstopamanna klippa burt reykingaatriði úr hluta af 1.500 myndum af þessum fjörugu skepnum. Og nú eru án efa líka uppi hugmyndir um að endurteikna Tinnabækurnar, enda ófært að Kolbeinn Kafteinn reyki þar pípu eins og ekkert sé eðlilegra. Að ekki sé talað um Sherlock Holmes, hvernig getur það gengið að hann fitli við tóbaksreykingar alveg án þess að hann eða líflæknir hans vari við skaðsemi þeirra. Þá er örugglega ekki síður afleitt að Lukku Láki skuli til skamms tíma sjaldan hafa sést án vafningsins.

Nú kann að vera að ýmsum sem ekki reykja – og er jafnvel meinilla við reykingar – þyki í góðu lagi þótt Tommi og Jenni sjáist ekki reykja og muni ekki sakna þess þótt útvarpsmönnum verði bannað að gefa hlustendum vindlinga. Það má jafnvel vera að þeim þætti ekki mikið verra þótt Kolbeinn Kafteinn yrði endurskrifaður eða ef útgefendur myndu breyta gömlum bókum um Lukku Láka og Sherlock Holmes þannig að þeir yrði harðir andstæðingar reykinga. En dettur einhverjum í hug að ofstopamenn láti staðar numið við reykingar takist þeim að þurrka þær út úr nútímanum, mannkynssögunni eða bókmenntunum? Vitaskuld ekki, það yrði aðeins fyrsta skrefið.

Því fer nefnilega fjarri að reykingar í nokkrum þáttum af Tomma og Jenna séu skaðvænlegasta hegðunin sem þar er sýnd. Í hverjum einasta þætti er sýnt ofbeldi sem er þess eðlis að reyni óvitar að leika það eftir munu þeir bæði skaða sjálfa sig og aðra. Er ekki sjálfsagt að klippa öll þau atriði út, þó að það yrði að vísu til þess að eftir yrðu aðeins upphafs- og lokamyndir þáttanna? Og það er líka fleira í Tinnabókunum en reykingar Kolbeins Kafteins sem fer fyrir brjóstið á þeim sem vilja hafa vit fyrir öðrum. Hið sama er að segja um aðrar þær sögur sem hér hafa verið nefndar og nægir þar að nefna ofbeldið sem leikur stórt hlutverk í öllum þessum sögum líkt og stórum hluta bókmennta heimsins. Leiðir þessi ofbeldisdýrkun ekki bara af sér meira ofbeldi? Er ekki rétt að endursemja þetta allt saman?

Og hvað með ýmsa aðra vafasama þætti bókmenntanna, til dæmis teiknimyndasagnanna? Er líðandi að gert sé stólpagrín að minni máttar? Verður það ekki aðeins til þess að slíkir verða fyrir aðkasti? Er til dæmis nokkur ástæða til að leyfa það að gert sé grín að vitgrönnum opinberum starfsmönnum? Hvaða afleiðingar hefur það að Loftur og Lárus eru eins og þeir eru? Eða Skafti og Skapti? Er ekki óþolandi að óharðnaðir unglingar lesi bókmenntir sem gefa slíka mynd af embættismönnum? Gæti þeim ekki dottið í hug að eitthvað væri að slíku fólki? Bíðum ekki þar til barnið er dottið í brunninn. Bönnum alla þessa stórhættulegu karaktera.