Mánudagur 21. ágúst 2006

233. tbl. 10. árg.

Hún er trygglynd, seinheppni Halldórs Ásgrímssonar, og skildi hann ekki eftir einan á síðasta flokksþingi hans sem formaður Framsóknarflokksins. Að vísu var sá kosinn formaður sem Halldór vildi, en með naumindum þó. Stærsta sigur þingsins vann þó Guðni Ágústsson, maðurinn sem Halldór Ásgrímsson hafði sagt opinberlega að ætti að hætta í forystusveit flokksins. Sú ósk Halldórs var algerlega hunsuð á þinginu og segir það nokkuð um það hversu mjög flokkmenn Halldórs hafa deilt stöðumati hans síðastliðið sumar. Þessi skýra ósk Halldórs, að Guðni Ágústsson hyrfi með sér úr forystusveit, gerir ósigur Jónínu Bjartmarz enn stærri, þó fyrstu viðbrögð hennar við ósigrinum hefðu að vísu verið sú að hóta enn einu framboðinu. Jónína hefur setið á þingi í sex ár, mun víst hafa gengið til liðs við Framsóknarflokkinn ekki löngu áður, og hefur því haft þann sið að bjóða sig fram til varaformanns þriðja hvert ár að meðaltali. Það er virðingarverð fórnarlund sem fáir aðrir en Kristinn H. Gunnarsson geta státað af með henni. Þó Kristinn fari raunar sjaldnast í framboð þá talar hann jafnan eins og það vofi yfir og alltaf mæta fréttamenn og flytja langar hugleiðingar um stöðu Kristins, áskoranir á Kristin og gríðarlegan stuðning hans meðal „grasrótarinnar“.

Seinheppni Halldórs Ásgrímssonar kom þó ekki síst í ljós hvenær sem utanríkismál komu til umræðu. Í ályktunum flokksþingsins segir Framsóknarflokkurinn til dæmis að EES-samningurinn muni nýtast Íslendingum vel um ókomin ár, og er þar komið í strokkinn annað hljóð en sífelld neyðaróp Halldórs sem árum saman taldi samninginn vera svo að veikjast að fátt nema allsherjaruppgjöf fullveldis og innganga í Evrópusambandið gæti tryggt fullveldi og sjálfstæði landsins. Virðist sem að heilsufar EES-samningsins hafi ekki þurft annað en brottför Halldórs úr stjórnmálum og er það auðvitað heldur leiðinlegt fyrir Halldór en að sama skapi skemmtilegt fyrir EES-samninginn. Í setningarræðu fundarins var utanríkisstefna landsins undanfarinn áratug svo gagnrýnd óvægið, sem kom auðvitað heldur illa við alla áheyrendur sem ólíkt ræðumanni höfðu ekki gleymt hver var utanríkisráðherra nær allan þann tíma. Halldór Ásgrímsson upplýsti svo fyrir sitt leyti að á næstu árum myndu Evrópuríki skipta meira máli en Bandaríkin við varnir Íslands og eins og honum til heiðurs tilkynntu Frakkar samstundis hversu myndarlega þeir myndu koma að friðargæslu í Líbanon. Meðan vopnahlé var einungis á umræðustigi töluðu Frakkar borginmannlega og var gert ráð fyrir að þeir yrðu burðarás í friðargæslu ef af henni yrði. Sameinuðu þjóðirnar segja í ályktun sinni að fimmtán þúsund friðargæsluliða þurfi til Líbanon og nú þegar til kastanna kemur segjast Frakkar ætla að senda fimmtíu menn, sem síðar muni verða fjölgað upp í tvöhundruð. Þó íslenskir Evrópusinnar fái jafnan glýju í augun við að horfa til meginlandsins, þá er hætt við því að jafnvel Halldór Ásgrímsson yrði fyrir vonbrigðum með varnarsamstarf við orðstórar Evrópuþjóðir.