Föstudagur 18. ágúst 2006

230. tbl. 10. árg.

Fljótt á litið virðast bankar bjóða mjög álitlega vexti á innlánsreikningum um þessar mundir. Innlánsvextir hafa ekki verið svo háir um langa hríð. Sem dæmi um það má nefna bók eins bankans sem gefur 8% vexti en dæmi eru um vexti yfir 12%.

Miðað við að verðbólga verði um 8% á árinu þá munu raunvextirnir á þessari bók með 8% óverðtryggðri ávöxtun verða engir, núll. Maður sem geymir 1 milljón króna á slíkri bók í ár fær því í raun enga ávöxtun á sparifé sitt. Hann þarf hins vegar að greiða 8 þúsund krónur í fjármagnstekjuskatt sem er 10% af vöxtunum. Raunávöxtunin eftir skatt er því komin niður fyrir núllið og tapið er 8 þúsund krónur.

Önnur bankabók gefur 9% vexti og miðað við sömu 8% verðbólgu mun raunávöxtun af 1 milljón króna verða 10 þúsund krónur. Af þessum 10 þúsund krónum fara hins vegar 9 þúsund krónur til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Fjármagnstekjuskatturinn er því 90% af raunávöxtun. Svo vilja einstaka menn hækka fjármagnstekjuskattinn!

 Dæmi um 90% fjármagnstekjuskatt af raunávöxtun.

Einnig má taka dæmi af verðtryggðum reikningi með 4% vöxtum. Standi 1 milljón króna á slíkum reikningi í eitt ár í 8% verðbólgu munu vaxtatekjur verða 120 þúsund krónur í lok árs en raunvextir 40 þúsund krónur. Af þessum 40 þúsund krónum þarf að greiða 12 þúsund í fjármagnstekjuskatt eða 30%.

Fjármagnstekjuskatturinn er þeim eiginleikum gæddur að hann er ekki aðeins greiddur af tekjum heldur einnig af engum tekjum og jafnvel hreinu tapi ef verðbólga er meiri en vaxtakjör á bankabókum. Í mikilli verðbólgu leggst skatturinn af miklum þunga á sparifjáreigendur. Eins og dæmin hér að ofan sýna getur skatturinn verið óendanlega hár og sýna þau hve kröfur um að hækka skattinn upp í sama hlutfall og tekjuskatt einstaklinga eru óraunhæfar. En á sama tíma og sparifjáreigendur tapa mjög miklu á samspili verðbólgu og fjármagnstekjuskatts hagnast ríkissjóður verulega því nafnvaxtatekjur hækka verulega og um leið fjármagnstekjuskatturinn.

<!––> <!––>