S umir af forsprökkum Framsóknarflokksins eru með Íbúðalánasjóð á heilanum og telja allra mikilvægast að verja hann með því að koma í veg fyrir breytingar á húsnæðismarkaði. Þetta er meðal þess sem lesa mátti út úr ræðum flestra frambjóðenda til æðstu embætta flokksins á þingi hans í gær. Einhverjum kann að koma þessi áhugi á óvart þar sem ljóst er að ekki er þörf fyrir ríkið á húsnæðislánamarkaði, en þá verður að hafa í huga að Íbúðalánasjóður er eitt síðasta afdrep atvinnulausra framsóknarmanna og flokknum því ekki lítils virði að halda í óbreytt ástand. Í þessu samhengi kemur líklega engum á óvart að varaformaður flokksins, Guðni Ágústsson, skuli segja að standa eigi vörð um Íbúðalánasjóð, en þeir sem héldu að skokkarinn Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir eða Jónína Bjartmarz, sem hefur á síðustu vikum lagt það á sig að ræða við framsóknarmenn utan Reykjavíkur, væru annarrar gerðar, verða ef til vill hissa á ákafri varðstöðu þeirra.
Tónninn í frambjóðendunum var heldur betri þegar kom að Evrópusambandinu, því að bæði Guðni og Siv telja óþarft að ræða aðild að sambandinu, en Jónína segir að meta þurfi stöðuna gagnvart aðild hverju sinni. Það að meta þurfi stöðuna hverju sinni er líklega lítið annað en pólitískt tal, svona dæmigert framsóknartal, og til þess ætlað að fæla engan frá frambjóðandanum. Staðreyndin er þó sú þegar kemur að Evrópusambandinu að það hefur litla merkingu að segjast ætla að meta stöðuna hverju sinni. Menn meta stöðuna nefnilega ekki nema einu sinni ef niðurstaðan er að óska inngöngu, því að eins og allir vita er ekki boðið upp á útgöngu síðar. Evrópusambandið er þess vegna ekkert sem menn daðra við og sjá til hverju sinni hvort þeir falla fyrir. Ef óvarlega er farið sitja menn uppi með afleiðingarnar það sem eftir er.
Annars virðist fátt markvert eða verulega óvænt hafa komið fram í ræðum frambjóðendanna, en í ræðu Halldórs Ásgrímssonar fráfarandi formanns voru ákveðin atriði sem vert er að nefna. Hann kom meðal annars inn á skattamálin og benti á að þrátt fyrir mikla lækkun á tekjuskatti fyrirtækja skila þau nú miklu meira fé í ríkissjóð en fyrir lækkunina. Þessar auknu tekjur gerðust reyndar ekki þrátt fyrir lækkunina eins og Halldór orðaði það, heldur einmitt vegna hennar. Þá varaði Halldór við tali um að hækka fjármagnstekjuskattinn og hefur vonandi náð eyrum flokksmanna sinna sem sumir virðast hafa gleymt því upp á síðkastið að sterk rök hafa verið fyrir þeim jákvæðu breytingum á skattkerfinu sem hrint hefur verið í framkvæmd í valdatíð þeirra og sjálfstæðismanna síðasta áratuginn eða svo.
T alandi um skattamál og umræður stjórnmálamanna um þau er ekki úr vegi að minnast á grein Birgis Ármannssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í fyrradag þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvort að vit væri í að hækka fjármagnstekjuskattinn. Hann svaraði spurningunni þannig að það væri „efnahagslegt glapræði“ að hækka þennan skatt en sagði hins vegar góð rök fyrir því að draga úr muninum á tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjuskattinum. Þessu vill hann ekki ná fram með hækkun lægri skattsins, heldur með því að „lækka tekjuskatt einstaklinga enn frekar en þegar hefur verið gert. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa á undanförnum árum stigið mörg skref í því sambandi og þessi umræða dregur fram enn eina röksemdina fyrir því að láta ekki staðar numið á þeirri leið.“
Vonandi verða slíkar raddir háværari meðal þingmanna þegar líður á haustið og veturinn, enda er það nauðsynlegt vilji ríkisstjórnin sleppa við að svíkja loforð sitt um 4% lækkun tekjuskatts á einstaklinga.