Fimmtudagur 17. ágúst 2006

229. tbl. 10. árg.

Honum leiðist auðvitað að trana sér fram en hann hefur alltaf haft þá reglu að þegar sá flokkur sem hann er í þarf á sínum bestu mönnum að halda, þá gerir hann skyldu sína. Kristinn H. Gunnarsson hefur gefið kost á sér til embættis ritara Framsóknarflokksins. Ritari flokksins hefur víst þann starfa með höndum að sinna innra starfi flokksins, fylkja liðinu, bera klæði á vopn, tryggja það allir vinni saman að settu marki. Hver gæti verið betur til þess fallinn en Kristinn H. Gunnarsson?

Vitaskuld var rætt við Kristin í Ríkissjónvarpinu í tilefni af framboðinu. Fréttamaður spurði Kristin hvort „hægrislagsíðan“, með ákveðnum greini, á Framsóknarflokknum væri orðin of mikil og fékk það svar að of langt hefði verið gengið í einkavæðingu á síðustu árum. Einhverra hluta vegna var Kristinn ekki spurður hvers vegna hann byði sig fram til áhrifalítils innrastarfs-embættis eins og ritara þegar það er í raun stefna flokksins undanfarin ár sem hann hefur athugasemdir við. En það var fleira sem hann var ekki spurður um og þá kannski eitt og annað sem áhugavert hefði verið að vita.

Þarna var alþingismaður stjórnarflokks og hélt því fram að ríkisstjórnin hefði gengið of langt í einkavæðingu á síðustu árum. En samt var hann ekki spurður þeirrar augljósu spurningar hvað það hefði verið sem stjórnvöld hefðu selt sem hann hefði ekki viljað selja. Átti ekki að selja bankana? Vildi Kristinn H. Gunnarsson að ríkið ætti ennþá viðskiptabankana, annan eða báða, sem það seldi fyrir nokkrum árum? Vildi hann að ríkið ræki ennþá símafyrirtæki? Hvaða einkavæðing var það sem ekki hefði átt að fara fram – og gekk þá vitanlega í garð gegn atkvæði Kristins H. Gunnarssonar?

Ígærkvöldi fóru fram ýmsir vináttulandsleikir í knattspyrnu og þuldu fjölmiðlar upp úrslit þeirra eins og þau skiptu máli. Í einum leiknum urðu raunar þau mistök að eingöngu var sagt að Austurríki-Ungverjaland hefði átt í hlut, en því miður var ekki tekið fram á móti hverjum.