Miðvikudagur 16. ágúst 2006

228. tbl. 10. árg.

I

Formaður hálf-andvana Landssambands hugvitsmanna vill opinbera styrki til að koma sellunum í gang.

ðnaðarráðherra og þjónustumiðstöð Iðntæknistofnunar hafa sýnt hugvitsmönnum „skilningsleysi“ að sögn Elínóru Ingu Sigurðardóttur formanns Landssambands hugvitsmanna í Blaðinu í gær. Skilningsleysi stjórnvalda í kröfugerðarmálum sem þessum þýðir reyndar alls ekki að stjórnvöld sýni ekki skilning, það vill bara svo til að stundum sýna þau skattgreiðendum en ekki hagsmuna- og kröfugerðarhópum skilning. Skilningsleysi iðnaðarráðherra, Jóns Sigurðssonar, er þess vegna afar vel þegið að þessu sinni og gott til þess að vita að hann skuli ekki láta undan þrýstihópum þó að hann standi í kosningabaráttu sem oft fær menn til að kikna í hnjáliðunum.

Elínóra hugvitsmaður segir afar dýrt að koma hugmynd í framkvæmd og að á meðan fái uppfinningamaðurinn ekki nein laun fyrir vinnu sína. „Hægt er að fá ýmsa styrki til að þróa vöruna en aldrei er gert ráð fyrir launagreiðslum af neinu tagi,“ hefur Blaðið eftir Elínóru, sem lætur þess jafnframt getið að hugvitsmannafélagið hafi að mestu legið niðri undanfarin ár. Það var stofnað árið 1996 og hefur því átt fremur stutt blómaskeið. Ástæðan er aftur skilningsleysi iðnaðarráðuneytisins, líklega þá fyrri ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, því að félagið hefur að sögn Elínóru ítrekað sóst eftir fjárstuðningi frá ráðuneytinu til að „félagsmenn geti viðhaldið starfinu og miðlað af reynslu sinni til ungra íslenskra uppfinningamanna“.

Hugmyndir hugvitsmannanna eru ekki aðeins frjóar og frumlegar að því leyti að þeir vilja að skattgreiðendur borgi brúsann. Útfærslan er líka spánný eins og Elínóra sýnir fram á í Blaðinu: „Okkar tillögur eru þær að taka upp svokölluð frumkvöðlalaun, ekki ósvipað listamannalaunum, þannig að uppfinningamenn fengju greitt fyrir vinnu sína við uppfinningar.“ Nú er sem sagt ekki nóg með að ríkið eigi að standa að framleiðslu listaverka í landinu, jafn einkennilegt og það annars er, heldur vilja hugvitsmenn komast hærra upp á á spenann og fara að vinna við að hugsa á kostnað almennings. Hvað ætli Georg gírlausi hefði sagt við svona löguðu?

O g talandi um íbúa Andabæjar. Í Blaðinu í gær mátti einnig lesa frétt þess efnis að þúsundir stjarneðlisfræðinga hygðust í vikunni hittast í Prag til að ræða hvort lækka ætti Plútó í tign. Hvað ætli Feitimúli segi við svo mikilvægri umræðu?