Þriðjudagur 15. ágúst 2006

227. tbl. 10. árg.

Þ að er ef til vill vegna þess hve orð Össurar Skarphéðinssonar alþingismanns þykja léttvæg sem óvenjuleg árás hans á nafngreindan íslenskan embættismann í síðustu viku hefur ekki vakið nokkra athygli. Össur var í viðtali á Nýju fréttastöðinni þegar hann sagðist telja „óheppilegt að hafa þann ágæta sendiherra sem að er í forystu þessara samningaviðræðna fyrir þeim“, og gat þess að umræddur sendiherra er Albert Jónsson. Össur skellti allri skuldinni af litlum árangri viðræðnanna á þennan tiltekna embættismann sem hann sagði „reynslulítinn“.

Um þennan „reynslulitla“ embættismann segir á vef stjórnmálafræðiskorar Háskóla Íslands: „Albert er einn fremsti sérfræðingur Íslendinga á sviði alþjóðastjórnmála og hefur kennt við félagsvísindadeild síðan 1982. Haustið 2004 var hann skipaður sendiherra, en hafði þá verið deildarstjóri í forsætisráðuneytinu og ráðgjafi forsætisráðherra um utanríkismál síðan 1991. Áður hafði Albert verið framkvæmdastjóri Öryggismálanefndar um nokkurra ára skeið. Hann lauk M.Sc. prófi frá London School of Economics and Political Science árið 1979.“

Nú er ekki gott að segja hvað vakir fyrir Össuri með þessari árás á Albert Jónsson. Jafnvel Össur hlýtur að átta sig á að tal um reynsluleysi er fjarstæðukennt. En ef til vill vantaði Össur bara átyllu til að gaspra eitthvað og gapa þennan daginn og datt ekkert skárra í hug en að veitast að manni sem er í þeirri stöðu að eiga erfitt með að svara fyrir sig. Svo er til önnur möguleg skýring, en hún er að þessi orð Össurar séu einfaldlega í eðlilegu framhaldi af því hvernig hann hefur áður hagað sér.

Þessi framkoma nú er engu að síður óvenjuleg svo ekki sé meira sagt og hætt er við að þingmenn Samfylkingarinnar hefðu uppi stór orð ef þingmaður annars stjórnarflokksins mundi tala um störf nafngreindra embættismanna með þessum hætti.