Mánudagur 14. ágúst 2006

226. tbl. 10. árg.
Eins og fram kom í viðtali við formann Samfylkingarinnar á NFS á dögunum þarf gefa upp á nýtt og skammta náttúrunni betri spilin.
– Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í grein í Morgunblaðinu 14. ágúst 2006.

Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar telur að álver og virkjanir hafi fengið háspilin en náttúran hundana á undanförnum árum. Til að bæta úr þessu virðist hann vilja auka veg Samfylkingarinnar við landsstjórnina því Samfylkingin og formaður hennar lofi náttúrunni betri spilum. Væntanlega vill Dofri telja kjósendum í þingkosningum næsta vor trú um að Samfylkingin standa vörð um náttúruna gegn frekari virkjunum og álverum.

Árið 1991 var líka kosið til Alþingis og þá var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir einn af frambjóðendum Kvennalistans. Kvennalistinn var mjög á móti samningum um álver við erlend stórfyrirtæki eða „alþjóðlega auðhringa“ eins og  það hefur vafalaust kallast í stefnuskrá listans. Þetta var eitt helsta stefnumál listans fyrir kosningarnar og langan tíma þar á undan. Í sjónvarpsþætti á kosninganótt lá fyrir að ný vinstri stjórn yrði ekki mynduð án þátttöku Kvennalistans. Fulltrúi Kvennalistans í sjónvarpsþættinum var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún gerði sér lítið fyrir og sneri stefnu Kvennalistans í málinu og lýsti því yfir að Kvennalistinn gæti samþykkt álver ef hún og vinkonur hennar kæmust í ráðherrastólana. Ef rétt er munað hjá Vefþjóðviljanum er þessi sama Ingibjörg nú formaður Samfylkingarinnar.

Í kosningum næsta vor verður að öllum líkindum frambjóðandi í boði sem beinlínis hefur sagt sig andvígan álverum fyrir kosningar en bara látið þá stefnu lönd og leið að loknum kosningum.

Það halda það ýmsir um þessar mundir að þeir muni uppskera mest í næstu kosningum sem láta verst gegn þeim virkjunum og álverum sem nú rísa. Samfylkingin blaktir eins og strá í vindi undan þessum kenningum. En fyrir síðustu kosningar reyndi Samfylkingin allt hvað hún gat að tengja sig álverinu fyrir austan. Svo langt gekk það að kynningaspjöld álversins voru gerð að auglýsingaspjöldum frambjóðenda Samfylkingarinnar á forsíðu kosningablaðs flokksins.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar baða sig í álbræðsluroðanum í austri.

Í kosningunum næsta vor verður því ekki aðeins í boði frambjóðandi sem var hefur það á afrekaskránni að hafa verið andvígur álveri fyrir kosningar en fylgjandi álveri strax að þeim loknum heldur einnig stjórnmálamaður sem var fylgjandi álveri og stóriðju fyrir kosningar en á móti þeim eftir kosningar. Það áhugaverða fyrir kjósendur er að þetta er sami frambjóðandinn.

Dofri Hermannsson hefur rétt fyrir sér þegar hann segir stefnu Samfylkingarinnar eins og spilastokk. Það veit enginn hvað hann fær.