Fimmtudagur 27. júlí 2006

208. tbl. 10. árg.

Sumum finnst athafnafrelsið sjálfsagt. Það sé jafn nauðsynlegt og andrúmsloftið, jafn tiltækt og kranavatn og jafn tryggt á sínum stað og Esjan. Þó er það svo, að gerólíku er að jafna saman því frelsi sem Íslendingar búa við í dag og svo því sem þeir urðu að gera sér að góðu fyrir aðeins fáum árum. Þeir sem hafa ekki kynnst hömlum og höftum, en taka frelsinu eins og sjálfsögðum hlut, skilja sennilega fæstir hvað átt er við með þeim heldur ófrýnilegu hugtökum, sem þó voru blákaldur raunveruleiki í íslensku viðskiptalífi árum saman og kostaði mikla baráttu að hnekkja.

Í gær var borinn til grafar kunnur athafnamaður, Bragi Einarsson kenndur við Eden í Hveragerði, og í eftirmælum um hann í Morgunblaðinu sagði Þorkell Valdimarsson að Bragi hefði oft rifjað upp „byrjunarbasl“ sitt í ræktun: „Þegar Bragi var að leggja drög að því að stofna til atvinnurekstrar, var allt fullt af nefndum hjá hinum opinberu stjórnvöldum – því í landinu var vinstri stjórn Hermanns Jónassonar – nefndirnar voru til þess ætlaðar að lama athafnaþrá einstaklinga og framtakssemi þeirra.“ Sjálfur er Þorkell líklegur til að hafa fylgst með baráttu framtakssamra manna við höft og hömlur, en Valdimar faðir hans rak lengi slíka verslun með félaga sínum Sigurliða að gælunöfnin Silli og Valdi eru enn vel þekkt.

Höftin, eins og þau voru, heyra sögunni til. En sú saga má ekki gleymast svo algerlega að varðstaðan um frelsið falli niður. Athafnafrelsi borgaranna, frjáls markaður þar sem allir geta spreytt sig ef þeir aðeins gangast undir almennar leikreglur, er besta leiðin til að bæta hag borgaranna. Opinberar nefndir, sem vilja gjarnan skipuleggja heiminn fyrir borgarana, eru þar miklu ólíklegri til lengdar, jafnvel þó svo þær kunni að vera skipaðar hinum mætustu mönnum sem vilja vel. Hversu hæfir sem slíkir nefndarmenn eru þá eiga þeir enga möguleika á að þekkja væntingar samborgara sinna nema að mjög takmörkuðu leyti. Og helst munu nefndarmennirnir heyra óskir sterkustu hagsmunahópanna sem hæst láta í fjölmiðlum. Minna ríkisafskipti því helst á frumskóginn þar sem sá sterkasti fer sínu fram. Það er hins vegar á markaðnum sem menn reyna að ná ágóða með því að uppfylla einhverjar þarfir og óskir annarra manna, og það er á markaðnum sem flestir fá einhverja uppfyllingu óska sinna vegna gróðalöngunar annarra.