Miðvikudagur 26. júlí 2006

207. tbl. 10. árg.

E f marka má Morgunblaðið spyr formaður Neytendasamtakanna hvers vegna matvælanefnd forsætisráðherra var sett á fót ef ekki standi til að fara að tillögum formanns nefndarinnar. Það er sérkennilegt að spyrja þurfi að þessu. Lá ekki allan tímann ljóst fyrir að þessi nefnd – eins og allar hinar nefndirnar sem Halldór Ásgrímsson skipaði meðan hann sat sem forsætisráðherra – var sett á fót til þess eins að reyna að lappa upp á fylgi Framsóknarflokksins í næstu skoðanakönnun?

F yrst minnst er á matvælaskýrsluna er ekki úr vegi að nefna það að nú virðist sem Doha-lota viðræðna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um aukna fríverslun með landbúnaðarafurðir sé runnin út í sandinn eða muni að minnsta kosti liggja í dvala um langa hríð. The Economist fjallar um þetta á vef sínum og telur litlar líkur á að viðræðurnar verði teknar upp aftur á næstu árum. Tímaritið telur réttilega að þessi niðurstaða sé hörmuleg, sérstaklega fyrir þróunarríkin, en Alþjóðabankinn hafi í fyrra reiknað út að með auknu viðskiptafrelsi í heiminum mætti lyfta að minnsta kosti 66 milljónum manna upp úr fátækt.

Endalok Doha-lotunnar skapar óvænt tækifæri fyrir íslenska neytendur.

The Economist segir að Bandaríkjunum verði sennilega kennt um að Doha-lotan fór illa, þar sem Bandaríkin hafi beitt sér fyrir mikilli lækkun tolla á landbúnaðarafurðir en ekki samþykkt þak á eigin niðurgreiðslur. Þetta sé kaldhæðnislegt, því að Bandaríkin hafi lagt mikið á sig til að koma Doha-lotunni af stað aftur eftir að hún sigldi fyrst í strand í Cancun fyrir þremur árum. Og George Bush hafi í meginatriðum verið eindreginn stuðningsmaður frjálsra milliríkjaviðskipta, þrátt fyrir áberandi frávik á borð við tolla á innflutt stál.

En þrátt fyrir að örlög Doha-lotunnar séu slæm tíðindi eru þau ekki alslæm, svo einkennilega sem það kann að hljóma, því að nú hafa andstæðingar lágs matvælaverðs hér á landi misst eina af helstu röksemdum sínum fyrir óbreyttu ástandi. Þessi röksemd hefur verið sú, eins og hér var fjallað um fyrir nokkru, að Íslendingar megi ekki minnka innflutningshömlur sínar einhliða vegna þess að þeir eigi í hinum alþjóðlegu Doha-viðræðum. Íslenskir neytendur hljóta að draga þá ályktun að nú fari að styttast í aukið viðskiptafrelsi og lægra matvælaverð.

S tefán Jón Hafstein borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann mótmælir því að ríkisstjórnin vilji fresta framkvæmdum við tónlistarhúsið sem áformað er að rísi við Reykjavíkurhöfn. Stefán Jón kallar ákvörðun ríkisins „hreinan dónaskap“ því að hún hafi ekki verið rædd í borgarkerfinu. Það er athyglisvert hve umhugað Stefáni Jóni er um virðingu borgarkerfisins, en hvar var hann þegar undirbúningur fór fram og ákvarðanir voru teknar með mjög vafasömum hætti um byggingu tónlistarhússins? Þá kvartaði Stefán Jón ekki, enda ekki um hagsmuni „borgarkerfisins“ að ræða í því tilviki. Þar var einungis verið að taka ákvarðanir sem snertu hagsmuni hins almenna borgara, skattgreiðandans. Borgarkerfið er auðvitað miklu merkilegra en borgararnir, að minnsta kosti að mati borgarfulltrúans Stefáns Jóns Hafstein. Eða ætti kannski frekar að kalla hann borgarkerfisfulltrúa?