Þriðjudagur 25. júlí 2006

206. tbl. 10. árg.
Við getum sagt að þetta óvanalega hagstæða tíðafar sem hefur verið undanfarin vor, nema kannski síðastliðið vor, hefur verið mjög hagstætt fyrir örninn. Hann er tegund sem er á norðurmörkum útbreiðslu sinnar þannig að hann er ein af þeim tegundum sem hagnast á hlýnandi loftslagi hér á landi og sérstaklega hlýnandi veðri á varptíma sem er svona frá apríl fram í maí. Þannig að hann mun örugglega njóta góðs af og við höfum til dæmis séð það undanfarin þrjú til fjögur ár að þá er örninn farinn að veiða fiska sem að voru engin dæmi um að hann hefði tekið áður eins og skötusel. Þeir fóru allt í einu að birtast, þessir ferlegu groddalegu kjaftar, í arnarhreiðrum. Grásleppukarlar við Breiðafjörð urðu líka varir við þetta því hann fór að ánetjast, skötuselurinn. Þannig að örninn er farinn að veiða skötusel og hann er farinn að veiða þorsk í auknum mæli vegna þess að þorskgengdin er vaxandi til að mynda við Breiðafjörð.
– Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrfræðingur í laugardagsþættinum á Rás 1 22. júlí 2006.

Ílaugardagsþætti Ríkisútvarpsins um síðustu helgi var rætt við Kristin Hauk Skarphéðinsson dýravistfræðing á Náttúrufræðistofnun Íslands og einn helsta sérfræðing landsins í málum hafarnarins. Arnarstofninn hefur lengi verið einn minnsti varpstofn landsins og vafalaust þykir mörgum fengur að góðum fréttum af viðkomu og aðstæðum hafarnarins. Þótt Kristinn Haukur flytti mjög uppörvandi fréttir af erninum rataði það ekki í inngang fréttamanns að þættinum. Í inngangi sagði fréttamaðurinn: „Sandsíli og loðna eru að hverfa af Íslandsmiðum vegna loftslagsbreytinga og afkoma margra fuglategunda er í hættu.“ Fréttamaðurinn hafði að sjálfsögðu enga fyrirvara á þessari hrollvekju og gat ekki um jákvæðu tíðindin af erninum.

Það er alveg rétt að Kristinn Haukur sagði óvanalega lítið um sandsíli við strendur landsins og það hefði mikil áhrif á afkomu margra sjófugla en flestir sjófuglastofnar hefðu hins vegar verið mjög vaxandi um árabil allt fram undir síðustu aldamót. Það væri hins vegar áhyggjuefni ef sandsílið væri að hverfa því það væri slík undirstöðufæðutegund margra sjófugla. Kristinn Haukur tók það fram að það sé „mjög erfitt að segja til hvers þetta mun leiða“ og það liggur auðvitað í hlutarins eðli að nokkurra ára tímabil segja oft litla sögu um hver langtímaþróun verður í lífríkinu.

Undir lok viðtalsins barst talið að þeirri skoðun danska tölfræðingsins Björns Lomborgs að það séu til brýnni verkefni en að berjast gegn loftslagsbreytingum. Sem dæmi um slík verkefni má nefna baráttuna gegn útbreiðslu HIV-veirunnar og malaríu, aukið framboð af hreinu drykkjarvatni og betri næringu. Þegar nafn Lomborgs var nefnt komst hinn ágæti náttúrufræðingur í mikinn ham og kallaði hann Lomborg – sem er fyrrverandi Greenpeace maður – „postula ýmissa öfgamanna til hægri“ og „alræmdan“ í Danmörku. Kristinn Haukur bætti því svo við að eiginlega engir hefðu tekið upp merki Lomborgs hér á landi nema þeir sem skrifa á Vefþjóðviljann. Það er alveg rétt að Vefþjóðviljinn hefur vitnað til skrifa Lomborgs og bók hans fæst í bóksölu Andríkis. En það var ekki Andríki sem þýddi bókina og gaf hana út og Lomborg hefur komið hingað til lands að minnsta kosti tvisvar á undanförnum árum og flutt erindi á ráðstefnum hjá sitthvorum félagsskapnum. Svo það er ekki alveg nákvæmt hjá vísindamanninum að segja að Vefþjóðviljinn sé einn hér á landi um áhugann á skoðunum Lomborgs á loftslagsmálum.