Föstudagur 28. júlí 2006

209. tbl. 10. árg.

Ífyrradag fengu einstaklingar aðgang að svonefndri álagningu, lagningu skatta á sig, á vef ríkisskattstjóra og um þessar mundir berast álagningarseðlar í pósti til þeirra sem það kjósa. Sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík höfðu hins vegar fyrir nokkru þegar sent vinnuveitendum þeirra sem eiga ógreidda skatta „kröfu vegna opinberra gjalda“ þar sem fram kemur hvað viðkomandi starfsmaður skuldar skattinum. Vinnuveitendur mann fá með öðrum orðum að vita af skattskuldum launþega sinna áður en launþegarnir sjálfur fá veður af þeim. Það eitt að vinnuveitendur séu upplýstir með þessum hætti um neikvæða stöðu manna gagnvart skattinum er einkennilegt og enn furðulegra er að það sé gert áður en launþeginn sjálfur er upplýstur um að málið. Ástæðan fyrir þessu er að skattyfirvöld ætlast til þess að vinnuveitendur innheimti gamlar skattskuldir starfsmanna, rétt eins og launagreiðendur skila staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars til skattheimtumanna. Þessar skuldir geta bæði verið ógreiddur tekjuskattur og tryggingagjald en einnig ógreitt meðlag. Skuldum þessum er jafnan dreift á fimm gjalddaga þannig að næstu fimm mánuðina þurfa fjármálastjórar fyrirtækja að skila tveimur skattgreiðslum af launum þeirra starfsmanna sem eiga óuppgerð mál frá síðasta ári. Þetta umstang fer að verða ágætt þegar skila þarf þessari skuldagreiðslu, staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, skyldulífeyrisiðgjaldi, séreignalífeyrissparnaði, stéttarfélagsgjaldi, sjúkrasjóðsgjaldi, starfsmannafélagsgjaldi, orlofsheimilagjaldi, starfsmenntasjóðsgjaldi og tryggingagjaldi. Svo eru menn hissa á því að það þurfi fjóra skóla til að framleiða næga viðskiptafræðinga til að sinna þessu öllu.

Næstu daga mun svo hópur fólks fá tékka frá skattheimtumönnum og gengur séu greiðsla jafnan undir heitinu „endurgreiðsla frá skattinum“. Í fæstum tilvikum er þó um raunverulega endurgreiðslu að ræða heldur ýmsar bætur sem hrært hefur verið saman við skattkerfið. Má þar nefna vaxtabætur en því minni skatta sem menn hafa greitt þeim mun hærri geta vaxtabæturnar orðið. Annað skilyrði fyrir vaxtabótum, en að hafa litlar tekjur og greiða lága skatta, er að hafa safnað verulegum veðskuldum á járnbenta steinsteypu. Annað dæmi eru tekjutengdar barnabætur. Þessar bætur eru bara alls ekki „endurgreiðsla frá skattinum“ heldur styrkur frá öðrum skattgreiðendum. Sem sést best á því að til þess að hámarka þessar bætur er best að hafa engar tekjur og greiða þar með engan tekjuskatt.